Sumar myndir eldast illa en á þessum lista eru aðeins myndir sem verða betri með árunum. Góða skemmtun!

Kiss Kiss Bang Bang (2005)

Leikstjóri: Shane Black
Aðalhlutverk: Robert Downey Jr., Val Kilmer, Michelle Monaghan og Corbin Bernsen.

Gagnrýnendur elskuðu þessa mynd, sem kom Robert Downey Jr. aftur á kortið eftir mögur ár þar sem hann einbeitti sér meira að fíkniefnum en bíómyndum. Í Kiss Kiss Bang Bang leikur Downey Jr. þjóf sem þykist vera leikari og flækist í morðmál ásamt einkaspæjara sem leikinn er af Val Kilmer. Handritið er stórkostlegt og þó söguþráðurinn sé eilítið flókinn missir maður aldrei þráðinn.

Solaris (2002)

Leikstjóri: Steven Soderbergh
Aðalhlutverk: George Clooney, Natascha McElhone, Viola Davis og Jeremy Davies

Solaris gekk ekki vel í kvikmyndahúsum og var markaðsefninu kennt um, sem þótti vera ansi villandi. Þá fannst mörgum það ansi djarft af Soderbergh að búa til mynd upp úr samnefndri skáldsögu eftir Stanislaw Lem þegar að sagan hafði þá þegar verið kvikmynduð í meistaraverki Andrei Tarkovsky frá árinu 1972. Útgáfa Soderbergh er hins vegar allt önnur og einblínir á ástarsöguna sem er þungamiðjan í skáldsögunni. Vanmetið meistaraverk.

Addicted to Love (1997)

Leikstjóri: Griffin Dunne
Aðalhlutverk: Meg Ryan, Matthew Broderick, Kelly Preston og Tchéky Karyo

Rómantíska gamanmyndin Addicted to Love er fyrir mörgum gleymd og grafin, sem er mikil synd því hún er bráðgóð skemmtun og gerir ákveðið grín að Hollywood-væmninni víðfrægu. Ryan og Broderick eru bundin saman af hatri sínu í garð fyrrverandi elskhuga sinna, sem eru nú par. Ryan og Broderick njósna um gömlu hreiðrin sín og falla loks auðvitað fyrir hvort öðru. Dásamlega hnyttin, sæt og skemmtileg mynd.

Armageddon (1998)

Leikstjóri: Michael Bay
Aðalhlutverk: Bruce Willis, Ben Affleck, Billy Bob Thornton og Liv Tyler

Vissulega spilar Armageddon á alla tilfinningastrengina og tikkar í öll stórslysamyndaboxin. Þess vegna gekk henni stórvel í kvikmyndahúsum en gagnrýnendur gjörsamlega hata þessa mynd. Þó það sé að einhverju leyti skiljanlegt, því hún gerir minna en ekkert til að snobba fyrir gagnrýnendum, þá er það miður því hér er á ferð testórsterónsprengja sem er prýðisskemmtun þegar að maður hefur ekki hugmynd um hvað maður á að horfa. Og já, tónlistin er sturluð!

Pain & Gain (2013)

Leikstjóri: Michael Bay
Aðalhlutverk: Mark Wahlberg, Dwayne Johnson, Anthony Mackie og Ed Harris

Annar klassíker frá Michael Bay, sem hægt er að horfa á aftur og aftur og aftur. Hún fékk afar misjafnar viðtökur en hún byggir á raunverulegum atburðum, sem maður trúir oft á tíðum ekki því atburðarrásin er svo ótrúleg. Hún fjallar um þrjú vaxtarræktartröll sem hafa ekkert sérstaklega mikið á milli eyrnanna en ákveða þrátt fyrir það að feta glæpabrautina til að redda sér pening á skjótan hátt. Auðvitað fer það eins illa og hægt er. Horfið á þessa strax í dag!

Empire Records (1995)

Leikstjóri: Allan Moyle
Aðalhlutverk: Anthony LaPaglia, Maxwell Caulfield, Debi Mazar, Renée Zellweger og Liv Tyler

Gagnrýnendur gjörsamlega rifu þessa mynd í sig þegar hún kom út en í dag er hún í algjörum költflokki, og skal engan undra. Myndin gerist á einum degi í plötuverslun og þykir manni vænt um hvern einasta kúnni sem gengur inn um dyrnar. Flottir frasar og hressandi mynd öllum þessum árum seinna.

That Thing You Do (1996)

Leikstjóri: Tom Hanks
Aðalhlutverk: Tom Hanks, Liv Tyler, Steve Zahn og Tom Everett Scott

Tom Hanks fannst alls ekki nóg að þreyta frumraun sína í leikstjórn með þessari heldur þurfti líka að leika aðalhlutverkið og skrifa handritið. Hann er greninilega góður í að múltítaska því þessi mynd er svo miklu, miklu betri en hún var í minningunni. Myndin fékk glimrandi dóma gagnrýnenda en sló engin met í miðasölutekjum og hefur hægt og rólega gleymst. Hún fjallar um uppspunna poppgrúbbu frá sjöunda áratug síðustu aldar sem sló rækilega í gegn. Tónlistin er geggjuð og sagan frábær frá herra Hanks.

Sunshine (2007)

Leikstjóri: Danny Boyle
Aðalhlutverk: Cillian Murphy, Rose Byrne, Cliff Curtis og Chris Evans

Sólin er að deyja og því kemur brátt að endalokum jarðarinnar líka. Hópur geimfara er sendur í leiðangur til að blása lífi í sólina en mistekst. Því er nýtt teymi sent í samskonar leiðangur sjö árum seinna og er síðasta von mannkynsins. Alls ekkert dramatískt eða neitt svoleiðis, en vá, algjörlega þess virði að eyða tæpum tveimur tímum í þessa snilld, þó margir gagnrýnendur hafi talið hana vonbrigði. Hvað vita þeir?

The Nice Guys (2016)

Leikstjóri: Shane Black
Aðalhlutverk: Russell Crowe, Ryan Gosling, Matt Bomer og Kim Basinger

Hér er klárlega á ferð ein vanmetnasta grínmynd síðasta áratugar, jafnvel aldarinnar, en hún fjallar um tvo afar ólíka fýra sem sameina krafta sína til að leysa óvenjulegt mál sem hefur alls kyns óvænta anga. Myndin fékk fína dóma og gekk ágætlega í kvikmyndahúsum en lifði stutt í minnum fólks, sem er óskiljanlegt því Crowe og Gosling fara hreint út sagt á kostum sem karlarnir sem ætla að leysa skringilega gátu. Þessi mun kosta þig nokkur hlátrasköll!

Kingpin (1996)

Leikstjórar: Peter Farrelly og Bobby Farrelly
Aðalhlutverk: Woody Harrelson, Randy Quaid, Vanessa Angel og Bill Murray

Það er synd og skömm að Kingpin sé ekki reglulega rifjuð upp því hún er sprenghlægileg, svo vægt sé til orða tekið. Harrelson, Quaid og Murray skína skært í hlutverkum sínum sem hringsnýst um heim atvinnumanna í keilu með öllu því gamansama og dramatíska sem því fylgir. Þó gagnrýnendur séu ekkert sérstaklega hrifnir af þessari einstöku gamanmynd þá hefur hún svo sannarlega staðist tímans tönn.