Um ævi Florence Nightingale er mikið vitað, enda heimildir margar og traustar. Það var hins vegar ekki ætlunin hér að fara djúpt í sögu hennar heldur nota þetta tækifæri til að vekja athygli á að síðan 1965 hefur 12. maí verið hátíðardagur hjúkrunar- og hjúkrunarfólks að frumkvæði Alþjóðasamtaka hjúkrunarfólks (ICN) sem stofnuð voru árið 1899 og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga á aðild að.

Hátíðarhöldin urðu að litlu

Á hverju ári frá 1965 hafa Alþjóðasamtökin haldið upp á 12. maí með þátttöku aðildarfélaga sinna í meira en 130 löndum. Í ár stóð til að halda daginn alveg sérstaklega hátíðlegan um allan heim þar sem hann markar 200 ára fæðingarafmæli Florence. Hafist var handa við stórfelldan undirbúning í fyrra en þær áætlanir urðu síðan að litlu á þessu ári með tilkomu kórónaveirufaraldursins.

Að vísu getum við ekki fullyrt að ekki verði eitthvað um hátíðarhöld einhvers staðar þar sem við höfum ekki skoðað það í kjölin og haft samband við aðila með þekkingu á því, en það er alla vega ljóst að þau verða a.m.k. ekki með því sniði sem Alþjóðasamtök hjúkrunarfólks höfðu hugsað sér í lok síðasta árs.

Sendum hjúkrunarfólki sérstaklega góða strauma

Hins vegar geta allir fagnað með sjálfum sér og ættu að fagna deginum í huganum og hugsa um leið alveg sérstaklega hlýtt til bæði hjúkrunarfóks hér á landi, svo og um allan heim, sem hefur sinnt störfum sínum og köllun á hinum erfiða tíma undangenginna mánaða af einstökum vilja og fórnfýsi. Þá ætti fólk einnig að minnast hjúkrunarfólks sem fallið hefur fyrir hinni skæðu veiru vegna þess hver framarlega það hefur verið í baráttunni.

Um leið verður enginn verri af því að kynna sér vel ævi og störf hinnar afkastamiklu Florence Nightingale sem var ekki bara einstakur frumkvöðull og brautryðjandi á sviði hjúkrunar og heilbrigðismála í heiminum heldur og rithöfundur og tölfræðingur sem gædd var ríkum skipulagshæfileikum enda varð hún einnig brautryðjandi í kennslu og þjálfun hjúkrunarfólks og háttsett innan breska heilbrigðis- og stjórnkerfisins.

Um Florence má m.a. lesa og fræðast á íslensku Wikipedia-síðunni, svo og á þeirri ensku og ekki síst í vandaðri grein Kristínar Björnsdóttur sem birtist fyrst í Lesbók Morgunblaðsins 1. júní 2002. Er tengt í þá grein hér.

Hér fyrir neðan má svo sjá myndband frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) frá því í fyrra þar sem Elizabeth Iro, yfirhjúkrunarfræðingur hjá WHO, flytur stutt ávarp í tilefni 12. maí 2019. Það ávarp á fullt erindi við alla Jarðarbúa í dag.