Um það bil tvö hundruð ár eru liðin síðan fyrstu eiginlegu furðusögurnar komu út. Síðan þá hefur þessi flokkur sagna — sem almennt er álitinn ná yfir geirana fantasíur, vísindaskáldskap og hrylling — verið helst til þekktur fyrir karllæg sjónarmið, karlhöfunda í yfirgnæfandi meirihluta, og jafnvel rauðan þráð af kvenhatri í efnistökum innan vissra geira. Þó hafa alltaf verið til kvenhöfundar (höfundur Frankenstein, Mary Shelley, hefur til dæmis verið kölluð móðir vísindaskáldskaparins) og eru þær vitanlega engu síðri en karlkyns starfsbræður þeirra, þó svo þær fái sjaldnast nema brot af athyglinni.

Ástandið virðist vera að lagast hægt og rólega undanfarin ár, en sýnist hverjum sitt um hve hratt. Sjálfsagt væri hægt að deila um það til eilífðarnóns, en við ætlum ekki að fara út í það hér í dag. Snúum þess í stað sviðsljósinu lítið eitt og skoðum stuttlega fimm framúrskarandi kvenhöfunda frá síðustu áratugum.

 

Ursula K. LeGuin

Ursula LeGuin er höfundur eins ástsælasta og heilsteyptasta söguheims í vísindaskáldskaparflórunni gervallri, og ber sá nafnið Earthsea. Ásamt Earthsea bókunum er hún frægust fyrir aðra seriu er kallast Hainish, en eftir hana liggur þó aragrúi annarra sjálfstæðra furðusagna. Henni er yfirleitt skipað í sess með fremstu feminísku höfundum síðustu aldar, og jafnan hrósað í hástert fyrir vandaða persónusköpun, listilega meðhöndlun á þemum, og algjörlega einstakan prósa.

Þrjár góðar: The Left Hand of Darkness, A Wizard From Earthsea, The Lathe of Heaven

 

Lois McMaster Bujold

Lois Bujold er helst þekkt fyrir geimóperur á epískum skala, og er þar frægasta serían hennar tvímælalaust Vorkosigan-serían, sem spannar yfir 25 bækur og smásögur og kannar þemu eins og tryggð, fjölskyldutengsl og siðferði genabreytinga. Aðalsmerki hennar er almennt talið vera fjölbreytileiki bókanna, sem sjaldnast eru svipaðar hvor annarri og sveiflast allt frá spennusögum til morðgátna til rómantískra frásagna. Bujold hefur sópað að sér verðlaunum í gegnum tíðina. Hefur hún meðal annars unnið til þriggja Nebula-verðlauna og sjö Hugo-verðlauna, þar á meðal fjögurra fyrir bestu skáldsögu (og er þar jöfn Robert A. Heinlein um metið í þeim flokki).

Þrjár góðar: Shards of Honor, The Curse of Chalion, Barrayar

 

Karen Thompson Walker

Þó hún hafi aðeins gefið út tvær bækur enn sem komið er (The Age of Miracles árið 2012 og The Dreamers árið 2019), er nú þegar ljóst að hér er á ferð gríðarlega fær höfundur. Walker hefur undraverð tök á því að vefa angurvært andrúmsloft sem finnst sterklega fyrir í hverju einasta orði textans. Fyrri bók hennar, The Age of Miracles, fjallar um viðbrögð og afdrif heimsbyggðarinnar þegar jörðin tekur allt í einu að hægja smátt og smátt á snúningi sínum og staðnæmist loks alveg  — tragísk hugvekja sem ómar sterkt á okkar skringilegu óvissutímum.

Ein góð: The Age of Miracles

 

Margaret Atwood

Atwood er almennt talin með fremri vísindaskáldskaparhöfundum heims, en henni er þó margt til lista lagt umfram furðusagnirnar — til að mynda hefur hún gefið út 18 ljóðabækur, 11 sannsögulegar bækur, átta barnabækur og níu smásagnasöfn og unnið til ótal verðlauna fyrir. Auk þess hafa mörg verka hennar verið aðlöguð fyrir sjónvarp og bíómyndir — hún var til dæmis höfundur samnefndrar bókar sem Hulu-serían A Handmaid’s Tale byggir á. Atwood fer gjarnan um víðan þematískan völl í frásögnum sínum, en liggur þó oftast mest á hjarta hugmyndir um sjálfsmynd, kyn, loftslagsbreytingar, trú, goðsagnir, og valdið sem tungumál býr yfir. Hún er sérstaklega þekkt fyrir gríðarsterka persónusköpun og nánast óaðfinnanlegt vald á því að skrifa trúverðugan og ómþýðan samtalstexta.

Þrjár góðar: Oryx & Crake, The Blind Assassin, Alias Grace

 

Connie Willis

Willis er einn margverðlaunaðasti vísindaskáldsagnahöfundur heims. Hún hefur unnið 11 Hugo-verðlaun, 8 Nebula-verðlaun og og 11 Locus-verðlaun. Frægust er hún fyrir svokallaða Tímaflakksseríu sína (“The Time Travel series”), sem fjallar um hóp sögunemenda og prófessora við Oxford-háskóla framtíðarinnar sem stunda það að ferðast aftur í tímann til að fræðast með eigin augum um leyndardóma sögunnar. Hún er þekkt fyrir að krydda frásagnir sínar með talsverðri kímni, þó svo að innihaldið sé alla jafna ekkert léttmeti — sálfræði- og félagsfræðilegir þankar, sem og vangaveltur um áhrif tækniþróunar á mannkynið, eru fastir punktar í sögum hennar. 

Þrjár góðar: To Say Nothing Of The Dog, Doomsday Book, Bellwether

 

Hverjar eru þínar uppáhalds? Einhver stórkostleg sem við gleymdum? Láttu okkur vita í athugasemdunum!