Heimurinn býður svo sannarlega upp á breiða flóru af fólki og fyrirbærum, og er mannfólkið jafnan iðið við að safna saman á einn stað öllu því er viðkemur tilteknum fyrirbærum — því furðulegra, því betra. Hið Íslenzka Reðasafn er gott dæmi um það, en önnur lönd láta síður en svo sitt eftir liggja þegar kemur að skringilegheitunum. Við svipuðumst um og fundum sjö stórskemmtileg og jafnframt stórundarleg söfn víðsvegar um heim. Njótið vel!

Slímsafnið

Sloomoo Institute

New York, New York, Bandaríkjunum

Eins og nafnið gefur til kynna er hér að finna safn helgað slími, en heimatilbúið slím hefur verið gríðarlegt tískufyrirbæri meðal yngri kynslóða síðastliðin ár og þykir jafnan hafa sefandi og kvíðastillandi áhrif. Lýsir safnið sér sem listrænni veröld sem “gerð er til að gleðja og vekja innra barn þitt.”

Klósettsafnið

Sulabh Toilet Museum

Nýju Delí, Indlandi

Þetta einkar fróðlega safn leggur mikinn metnað í að sýna af kostgæfni fimm þúsund ára sögu mannlegrar hreinlætisaðstöðu. Þrír heimar eru í boði: fornheimur, miðaldaheimur og nútíminn, allt frá frumstigi til hátækni. Hægt er að fara í sýndarferð hjá þeim á síðu þeirra.

Hamingjusafnið

Museum of Happiness

Kaupmannahöfn, Danmörku

Forráðamenn hins nýopnaða Hamingjusafns vilja ekkert meira en að fólk sé hamingjusamt, og miðast allt á safninu við að stuðla að því fyrir safngesti. Byggt er á meira en tveggja áratuga rannsóknum í jákvæðri sálfræði, og í gegnum gagnvirkar upplifanir og uppákomur fá gestir að læra alls kyns tækni sem hægt er að innleiða til að gera daglegt líf betra.

Neðansjávarlistasafnið

Cancun Underwater Museum of Art

Cancún, Mexíkó

Heillandi samansafn smærri sýninga sem samanstanda af rúmlega fimm hundruð skúlptúrum sem allir eru á kafi í grunnu vatni á vernduðu svæði í Cancún. Þó verkin séu vissulega gullfalleg þá er fegurðin ekki eini tilgangurinn, því kórallar myndast og vaxa á þeim líka — list sem náttúruvernd.

Vondulistarsafnið

Museum of Bad Art

Somerville, Massachusetts, Bandaríkjunum

Hér má finna gríðarstórt samsull listaverka sem gerð hafa verið af hinum “gölnu og ginnkeyptu,” eins og einn gagnrýnandi orðaði það. MOBA hefur undanfarna tvo áratugi haldið upp á slæma list í öllum sínum birtingarmyndum. Internetgallerýið þeirra er vel flokkað niður, þannig að allir ættu að geta fundið viðbjóð við sitt hæfi.

Ramen-safnið

Shin-Yokohama Ramen Museum

Yokohama, Japan

Heimamenn og gestir í Yokohama hafa í meira en áratug fengið að njóta þessarar einstaklega raunsönnu eftirlíkingar af Tokyo árið 1958, en það var árið sem japaninn Momofuku Ando fann upp skyndinúðlurnar. Á svæðinu má einnig finna fjölmörg útibú frægra ramen-staða. Sannkölluð paradís fyrir núðluaðdáendur.

Pyndingasafnið

Torture Museum

Amsterdam

Þetta skuggalega safn flytur gesti sína aftur í tímann til hinna myrku miðalda í Evrópu, þegar pyndingar og aftökur voru ívið algengari en gengur og gerist í dag. Má finna hér yfir 40 tól og tæki sem notuð voru við yfirheyrslur á glæpamönnum, nornum og pólitískum föngum. Safnið fræðir einnig gesti um nútímapyntingar, og heitir stuðningi við samning Sameinuðu Þjóðanna gegn pyndingum.