Drögum snöggvast, bara til gamans, línu á milli hryllingsmynda annars vegar og hrollvekja hins vegar.

Undir hryllingsmyndaflokkinn myndi falla allt sem stílar inn á blóð, innyfli, ofbeldi, skrímsli og þar fram eftir götum. Hryllingsmyndir vilja öllu fremur láta þér bregða, æsa þig upp og í sumum tilfellum hneyksla þig. Nightmare on Elm Street, Saw og Re-Animator myndu t.a.m. falla undir þennan flokk, ásamt flestum uppvakningamyndum og “slasher” ræmum.

Hrollvekjum á annað borð er ekki jafn mikið í mun að láta þig hrökkva í kút (þó vissulega eigi þær það til). Þær eru mun meira fyrir að láta þér renna kalt vatn á milli skinns og hörunds. Þær vilja fá þig til þess að trúa á ósýnilega andann bak við vinstri öxl, efast um raunveruleika þinn og fara að sofa með ljósin kveikt. Hryllingsmyndin vill fyrst og fremst skemmta þér, en hrollvekjan vill alltaf skemma þig pínulítið í leiðinni. Myndir eins og Hereditary, The Witch, Rosemary’s Baby og The Ring myndu allar flokkast sem hrollvekjur samkvæmt þessari skilgreiningu.

Hér koma þá sjö stjarnfræðilega áhrifarík dæmi um atriði úr síðari flokknum sem hafa vafalítið orsakað ófáa svefnlausa nóttina meðal saklauss almennings.

ATH: Hér verður ljóstrað upp söguatriðum, þannig að spillingarviðvörun er hér með lögð við áframhaldandi lestri – ef þið hafið ekki séð einhverjar þessara mynda, farið þá fyrst, njótið, hræðist upp úr skónum, komið svo aftur og segið okkur hvað ykkur fannst.

ATH(2): Fréttanetið tekur hvorki ábyrgð á svefnleysi né rafmagnsreikningi sökum ljósanotkunar sem gætu orsakast af áhorfi meðfljótandi myndskeiða, eða bíómyndanna sem innihalda þau.

7. Dregin fram úr – Paranormal Activity (2007)

Leikstjóri: Oren Peli

Þó seint verði hægt að kalla Paranormal Activity með betri hryllingsmyndum síðari áratuga stendur þetta atriði alltaf upp úr. Það er bara eitthvað við blönduna – öryggisupptakan, ósýnilega aflið, þessi skerandi öskur og svo þessi ógnvekjandi skuggi sem sést bregða fyrir á hurðinni rétt áður en gripið er í fótinn. Myndin sjálf er kannski upp og ofan, en allt small akkúrat rétt þennan tökudaginn hjá Oren Peli og félögum.

6. Þetta er ekki draumur – Prince of Darkness (1987)

Leikstjóri: John Carpenter

Prince of Darkness er sextánda mynd hrollvekjumeistarans Johns Carpenter og tvímælalaust ein sú vanmetnasta, þrátt fyrir að vera óneitanlega stórfurðuleg. Hún fjallar um hóp fræðimanna sem setur upp bækistöð í gamalli kirkju til að rannsaka óskilgreindan grænan vökva sem talinn er innihalda anda Satans (jebb). Eftir nokkra daga á svæðinu tekur þau öll að dreyma sama draum á nóttu hverri, sem virðist innihalda torskiljanleg skilaboð úr framtíðinni. Varla hægt að horfa á þetta án þess að fá gæsahúðarhroll í hvert einasta skipti.

(Þess má til gamans geta að ef hljóðheimurinn hér er kunnuglegur einhverjum þá er það sennilega vegna þess að hinn ástsæli hip hop plötusnúður og pródúsent DJ Shadow notaði hljóðskeið úr þessu atriði tvisvar, undir nöfnunum Transmission 1 og Transmission 2, á tímamótaplötu sinni “Endtroducing….” árið 1994.)

5. Bókin hans Georgie – It (1990)

Leikstjóri: Tommy Lee Wallace

Margir muna eflaust eftir fyrri kvikmyndaútgáfu metsölubókar Stephens King um heljartrúðinn Pennywise, en hún kom út í tveimur hlutum árið 1990 sem framhaldsmynd í sjónvarpi og skartaði mjög svo minnisstæðum Tim Curry í aðalhlutverki.

Þó fólk sé almennt samþykkt um að nýrri útgáfan (sem kom út í tveimur hlutum líka, 2017 og 2019) sé í alla staði betri, þá eru nokkur atriði í þeirri gömlu sem hafa staðist tímans tönn, þar á meðal þetta hér: aðalsöguhetjan flettir sorgmæddur í gegnum myndaalbúm litla bróður síns, sem varð trúðskvikindinu að bráð, og hin illu öfl sem búa í holræsinu ákveða í kjölfarið að minna aðeins á sig. Sérstaklega er gaman að því hvað tónlistin spilar hér stórt hlutverk í að undirstrika vægðarlausan óumflýjanleika þess sem er að eiga sér stað. 

4. Þú getur fært mér drenginn – The Babadook (2014)

Leikstjóri: Jennifer Kent

The Babadook skipar sér í sess með albestu hrollvekjum áratugarins sem leið, einkum vegna þess hve vel hún nær að setja fram hryllinginn sem holdgerving raunverulegra tilfinningavandamála (í þessu tilfelli sorgar einstæðrar móður vegna makamissis ásamt gremju gagnvart saklausu afkvæmi) og festa þar með klærnar djúpt í áhorfandann. Eitt besta hrollvekjuhandrit sem sést hefur í fleiri fleiri ár, ásamt því að vera bara einfaldlega stórkostlega sviðsett, leikin og leikstýrð bíómynd.

Í þessu atriði kemst vel til skila þessi linnulausi óhjákvæmileiki sem einkennir flestar betri hrollvekjur — kuldaleg fullvissan um að það sé engin leið til að flýja myrkrið, því það mun alltaf finna þig á endanum. Brrrr.

3. Maðurinn í símanum – Lost Highway (1997)

Leikstjóri: David Lynch

Lost Highway er ein frægasta mynd Davids Lynch og ekki að ósekju, enda er hér á ferð einstakur sálfræðitryllir. Hún er uppfull af minnisstæðum og súrrealískum atriðum, en eitt þeirra stendur upp úr: Dulmennið, eða “The Mystery Man” eins og hann er yfirleitt kallaður. Þetta atriði er oft nefnt sem eitt besta dæmið um einstakan hæfileika Lynch til að kalla fram draumkennd og ónotaleg hughrif sem setja sinn stimpil á hugarástand áhorfandans löngu eftir að myndinni lýkur.

2. Öskrið – The Thing (1982)

Leikstjóri: John Carpenter

Aftur hverfum við til meistara Johns nokkurs Carpenter, nema í þetta sinn á við sögu ein af hans frægari myndum. The Thing fjallar um hóp vísindamanna á Suðurheimskauti sem komast í tæri við sníkjudýrsskrímsli utan úr geimnum, þeim hæfileikum gætt að geta brugðið sér í líki þeirra sem það leggst á. Þegar hér er komið sögu í myndinni erum við að sjá skrímslið (eða hluta þess) berum augum í fyrsta sinn.

Hér er um að ræða eitt frægasta og óhugnanlegasta skrímslaöskur kvikmyndasögunnar, og hefur Carpenter sjálfur látið hafa eftir sér að hljóðið hafi verið hugsað sem blanda af sársaukaópum allra þeirra lífvera sem skrímslið hefur nokkurn tímann yfirtekið á ferð sinni milli stjarnanna. Þessi stórfenglega hljóðhönnun, í bland við gapandi óttann á andliti hins óheppna hýsils, gerir þetta að einu minnisstæðasta hrollvekjuatriði allra tíma.

1. Sadako í sjónvarpinu – The Ring (Ringu) (1998)

Leikstjóri: Hideo Nakata

Upprunalega japanska útgáfan af The Ring (sem hlaut mjög frambærilega og mun betur þekktari Hollywood-endurgerð árið 2002) er mögulega besta dæmið um hreinræktaða hrollvekju, ef notast er við skilgreiningarnar sem settar voru upp hér í byrjun. Nánast ekkert er lagt upp úr því að bregða áhorfandanum. Þess í stað er frá fyrstu mínútu byrjað að byggja upp stigvaxandi drungatilfinningu, sem nær svo sínu algjöra hámarki í þessu hreint út sagt mannskemmandi lokaatriði bíómyndarinnar.

Ringu fjallar um rannsóknarblaðakonu og fyrrverandi mann hennar, sem dragast inn í rannsókn á dularfullu myndbandi sem sagt er að dragi til dauða þá sem á það horfa, nákvæmlega sjö dögum eftir áhorf. Téð atriði er eins og áður sagði lokaatriði bíómyndarinnar, þar sem áhorfendur fá að sjá nákvæmlega hvernig þessi endalok eiga sér stað. Skemmst er frá því að segja að undirritaður gat ekki sofið í herbergi sem innihélt sjónvarp allnokkur ár eftir þann andlega skaða sem hlaust af þessum áhorfum.

Og þar með er það upptalið. Góðar stundir… og fagra drauma.

Hvaða hrollvekjuatriði hafa setið í þér löngu eftir að þú sást þau? Leyfðu okkur endilega að heyra í þér í athugasemdunum.