Undanfarin ár hefur áhugi Íslendinga á sterkum pipar stóraukist. Fyrir fólk í norðurhafi sem alið er upp á súrsuðu og söltuðu fiskmeti og mjólkurvörum er óneitanlega spennandi að finna fyrir smávegis hita, og eftir því sem þolið eykst gerir áhuginn það gjarnan líka. Ég ann chili” félagsskapurinn á facebook er til að mynda kominn upp í rúmlega 1100 manns, og sífellt vígjast ferskir postular í kirkju piparsins. Nýverið hefur Melabúðin í vesturbænum, ein ástsælasta hverfisbúð Reykjavíkur, farið að bjóða upp á stóraukið úrval heitsósa, sem fengnar eru frá heildversluninni Vúlkan.

Hér eru því 8 heitsósur sem enginn sannur hitaunnandi má láta fram hjá sér fara, allar fáanlegar á Íslandi í dag. Við byrjum á þeim vægari og færum okkur svo upp styrkleikaskalann, en hann er betur þekktur sem Scoville-skalinn.

Fyrir þau ykkar sem eru ókunnug Scoville-skalanum þá má til samanburðar nefna að Tabasco-sósan sívinsæla er 3750 Scoville-stig, grænn jalapenopipar er almennt metinn kringum 5000-9000 stig og tælenskir smápiprar eru, þrátt fyrir krúttlega stærð, metnir á 50.000-100.000 stig. Carolina Reaper piparinn, sem er almennt talinn með sterkustu piprum heims ef ekki sá sterkasti, flakkar á bilinu 1.6 til 2.2 milljón Scoville, og mælt er með að meðhöndla hann einungis í hönskum, því afar lítið gaman hlýst úr því að nudda olíunni óvart í augu eða nef.

En nóg með formálann. Kíkjum á þetta.

1. El Yucateco Chipotle

Framleiðandi: El Yucateco Hot Sauces

Scoville-styrkleiki: 3400

Búðu þig undir: Smávegis kitl en annars bara almennan ljúfleika, eins og pínulítið sterka reykta BBQ sósu

Þessari má í raun glutra að hjartans vild. Stórkostlega gott reykt BBQ bragð með örlitlum hita, og passar vel við nánast allar tegundir af mat. Aukinn kostur við El Yucateco sósurnar er að þær eru tiltölulega ódýrar miðað við gæði (eitthvað sem sést allt of sjaldan á litla Íslandinu okkar) og er því hægt að spreða að hjartans vild án þess að hafa stórfelldar áhyggjur af gjaldþroti.

 

 

 

2. Heartbeat Red Habanero

Framleiðandi: Heartbeat Hot Sauce Co.

Scoville-styrkleiki: 4000

Búðu þig undir: „Sterkt bragð,“ eins og 95% mannkyns skilgreinir það

Heartbeat, líkt og Yucateco, er fyrirtæki sem þekkt er fyrst og fremst fyrir bragð umfram hita, og er í raun erfitt að velja Red Habanero umfram Pineapple Habanero og Blueberry Habanero sósurnar sem í boði eru frá þeim. Allar eiga Heartbeat sósurnar þó sameiginlegt: hitinn er mildur en fastur á sínu, vandað er til vals á hráefnum, og flaskan er kreistanleg. Það er bara svo fjári gaman að geta kreist flöskuna aðeins.

 

 

3. El Yucateco Green

Framleiðandi: El Yucateco Hot Sauces

Scoville-styrkleiki: 8910

Búðu þig undir: Skarpan en þó þolanlegan hita, mögulega örlítinn roða í kinnum

Hér byrjar aðeins að rífa í fyrir flesta óvígða. El Yucateco Hin Græna er uppáhaldssósa fjölmargra chili-hausa, og sú sem oftast er gripið til í blindni þegar kemur að því að velja sósu til að hafa með kvöldmatnum. Þetta orsakast auðvitað fyrst og fremst af því að hún hefur til að bera ferskt og skarpt bragð sem hentar stórkostlega í nánast hvers konar matargerð sem er, og verandi Yucateco sósa kostar flaskan ekki nema litlar 900 krónur eða svo. Glutrið að vild, njótið, og æfið kryddþolsvöðvann. Þetta er klassíker.

 

 

4. Queen Majesty Scotch Bonnet & Ginger

Framleiðandi: Queen Majesty Hot Sauce

Scoville-styrkleiki: 9000

Búðu þig undir: Að þurfa að kaupa fleiri flöskur í tonnavís, af því sú fyrsta klárast á núll einni

Queen Majesty hafa einungis gefið út þrjár sósur í gegnum tíðina, og eru þær allar þekktar fyrir einstakar bragðblöndur umfram einhvern sérstakan hita. Þar með sagt er ekki mælt með því að sulla þessari í óhófi, því hún getur hæglega komið aftan að fólki ef ekki er varlega farið. Best er að nota hana í smáum skömmtum og njóta þess einstaka bragðs sem Scotch Bonnet habanero pipar og engifer mynda. Ein bragðbesta sósa sem völ er á, þó hún sé ekkert endilega að fara að senda þig beinustu leið inn á baðherbergi.

 

5. Garlic Reaper

Framleiðandi: Torchbearer Sauces

Scoville-styrkleiki: 116.000

Búðu þig undir: Að súpa smávegis hveljur, finna fyrir roða í kinnum og fá vott af svita á augabrúnir, en vera alveg sama af því hún bragðast bara svo fjári vel

Nú tekur eilítið að syrta í álinn. Garlic Reaper er fyrsta sósan á þessum lista sem notast við Carolina Reaper, sterkasta pipar í heimi, en blandan er þó tempruð hér með hvítlauk og olíu. Úr verður rjómakennd og óumræðilega ljúffeng sósa sem getur engu að síður eyðilagt daginn fyrir þér ef ekki er varlega að farið.

 

 

6. Da Bomb Beyond Insanity

 

Framleiðandi: Spicin Foods

Scoville-styrkleiki: 119.700

Búðu þig undir: Andlegt ferðalag inn í heim sársaukans

Scoville talan segir ekki alltaf alla söguna, og sjaldan er það sannara en þegar kemur að þessari. Þessi sósa er aðeins fyrir lengra komna, og ef þú ert kominn á þennan stað á annað borð þá ertu nokkurnveginn meðlimur í rússíbananum nú þegar. Eins og nafnið og markaðssetningin gefa til kynna er lítið stílað upp á bragð — þetta er meira og minna áskorun. Sitt sýnist þó hverjum um gæði þessarar. Flest fólk finnur einungis hita, en þau sjóaðri ná að sigta út bragðið á bak við eldinn.

7. Hellfire Fear This

Framleiðandi: Hellfire Hot Sauce

Scoville-styrkleiki: 679.000

Búðu þig undir: Stórkostlegt bragð í fyrstu, svo nokkrum sekúndum seinna algjöra endurskoðun á almennu gildismati gagnvart raunveruleikanum

Fear This er þekkt sem ein sterkasta „non-extract“ sósa heims — sósa sem notast ekki við neinskonar unnin þykkni og er einungis gerð úr hreinu hráefni. Hér er um að ræða meira og minna hreina Carolina Reaper stöppu, blandaða við lauk og hvítlauk á einhvern gjörsamlega göldróttan hátt. Þykknissósur eins og sú hér að ofan, Da Bomb, brenna þig til ösku undir eins, en sósur eins og Fear This taka sinn tíma — rétt eins og raunverulegi piparinn gerir.

 

 

8. Blair’s Mega Death Sauce

Framleiðandi: Blair’s Sauces and Snacks

Scoville-styrkleiki: 550.000

Búðu þig undir: Tár, nefrennsli, svita um gervallt höfuð, rauðar kinnar og andköf, ásamt fullvissu þess að andi Satans hafi heltekið þig líkamlega

Þessi er einungis fyrir þá lengst leiddustu. Hér er öllum pælingum um lífrænan raunveruleika hent rakleiðis út um gluggann og í staðinn er notast við efnafræðileg þykkni sem eru hönnuð til þess eins að sprengja bragðlaukana í loft upp. Þó svo að sósan fyrir ofan hana á listanum sé að nafninu til með hærra Scoville skor þá er þetta óumdeilanlega harðasta eintakið á þessum lista. Notið einungis með ýtrustu varúð — bara einn eða tveir dropar, og ekki meir.

 

Hefurðu prófað þessar? Gleymdum við einhverri? Láttu okkur heyra í þér í athugasemdunum.