Loch Ness
Upphaflega fréttin um að sést hefði til Loch Ness-skrímlisins lét ekki mikið yfir sér en vakti því meiri athygli um allan heim.

Það getur verið bæði gaman og fróðlegt að líta um öxl og skoða hvað var í fréttum fyrr á tímum enda endurspegla þær líka hina daglegu umræðu á meðal fólks. Af nægu er að taka en ef frá er kannski talin fréttin af dauða Osama Bin Laden árið 2011 hefur sennilega engin frétt sem birst hefur 2. maí vakið víðlíka athygli og haft aðrar eins afleiðingar og sú sem skoska héraðsritið Inverness Courier birti þennan dag árið 1933.

Í henni sagði frá því að par eitt sem leið átti hjá Loch Ness-vatni í Skotlandi nokkrum dögum fyrr hefði séð ókennilegt dýr bylta sér í vatninu. Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem sögur af furðudýri í Loch Ness voru sagðar en þetta var í fyrsta sinn sem prentuð frétt birtist um slíkan vitnisburð og kveikti hún þegar mikinn áhuga fjölmiðla um allan heim.

Á þann áhuga sló ekki þegar fleiri tóku að gefa sig fram sem sögðust hafa séð „Nessie“, eins og fljótlega var farið að kalla skrímslið, auk þess sem af því náðist fræg ljósmynd tæpu ári síðar. Hana tók Robert Kenneth Wilson og var hún birt í Lundúnarblaðinu Daily Mail 24. apríl árið 1934. Töldu margir hana lengi vel vera óræka sönnun um tilveru Nessie.

Varð grundvöllur blómlegrar ferðaþjónustu

Loch Ness
Ljósmyndin fræga sem Robert Kenneth Wilson sagðist hafa tekið af Nessie en hún var birt í dagblaðinu Daily Mail 24. apríl árið 1934

Á þessum tíma lágu engir almennilegir vegir að vatninu, bara slóðar, en ört vaxandi áhugi fjölmargra á að koma á staðinn og freista þess að sjá Nessie í eigin persónu urðu til þess að vegir að því voru byggðir. Smám saman varð straumur fólks á svæðið, bæði einstaklinga á eigin vegum og fólks í skipulögðum rannsóknarferðum, til þess að túristaþjónusta í kringum vatnið byrjaði að blómstra og hefur sá blómi haldið sér allt til dagsins í dag þrátt fyrir að frekar lítið hafi sést til Nessie á undanförnum árum. Segja má því að þessi litla frétt í Inverness Courier hafi leitt til blómstrandi efnahagsvaxtar fyrir heimamenn á svæðinu.

Sagan af Nessie og öllum þeim áhuga og því umstangi við vatnið sem fréttin í Inverness Courier skapaði spannar áratugi og inniheldur fjölmargar frásagnir fólks sem taldi sig hafa séð dýrið ásamt fréttum af alls kyns rannsóknum sem gáfu misgáfulegar vísbendingar um tilveru þess. Gríðarlegt efni er til um þetta á netinu, t.d. á Wikipediu, og geta þeir sem hafa áhuga kynnt sér þessa sögu betur þar.

Þess má geta til gamans að í upphaflegu fréttinni í Inverness Courier er talið að orðið „monster“ hafi sést í fyrsta skipti og náði það fljótlega að festa sig í sessi í enskri tungu sem gott og gilt hugtak yfir skrímsli.