ADHD og skólastarf á tímum COVID. ADHD samtökin bjóða upp á opinn spjallfund, um ADHD og skólastarf á tímum COVID, miðvikudaginn 26. ágúst nk. kl. 20:30. Fundurinn verður í fundarsal samtakanna að Háaleitisbraut 13 – IV. hæð og er ætlaður aðstandendum barna með ADHD, námsfólki með ADHD, skólafólki og öllu áhugafólki um betra líf með ADHD.

Vegna COVID faraldursins verður sérstaklega gætt að sóttvörnum og tveggja metra reglunni á fundinum og því getur komið til þess að takmarka þurfi fjölda fundargesta. Þeir sem koma fyrst, ganga þá fyrir.

Skólastarf er að hefjast um þessar mundir í grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum landsins. Víðast hvar mun COVID faraldurinn hafa mikil áhrif á allt starfið, bæði kennsluna, námið og öll samskipti innann skólasamfélagsins. Sem betur fer, erum við á margann hátt reynslunni ríkari en í vor, þegar faraldurinn skall á og mikilvægt er að nýta þá reynslu til góðs á komandi misserum. Á spjallfundinum mun Bóas Valdórsson, sálfræðingur miðla af reynslu sinni í þessum efnum, en auk þess að vera sérfræðingur í málefnum fólks með ADHD hefur hann starfað sem skólasálfræðingur í MH undanfarin ár. Bóas þekkir því vel þær áskoranir sem skólasamfélagið þurti að takast á við vegna COVID og hefur ýmis góð ráð um hvernig þeim verði best mætt – bæði af nemendum, kennurum og skólasamfélaginu almennt. Bóas hefur um nokkurt skeið, haldið úti hlaðvarpinu Dótakassinn, þar sem fjallað er um ungt fólk og hvernig það getur haft jákvæð áhrif á líf sitt og heilsu.

Með virkri þátttöku fundargesta gefst einnig gott tækifæri til að læra af reynslu annarra og heyra uppbyggjandi reynslusögur. Á fundinum verður einnig hægt að nálgast bæklinga samtakannabækur um ADHD og annað fræðsluefni. Við vekjum einnig athygli á upptökum af fræðslufundum frá vorinu 2020 sem nálgast nálgast hér og hlaðvarpi ADHD samtakanna, Lífið með ADHD.

Allir eru velkomnir, félagsmenn sem aðrir. Það verður heitt á könnunni og að sjálfsögðu kostar ekkert að taka þátt.

Spjallfundir ADHD samtakanna eru yfirleitt fyrsta og þriðja miðvikudag í hverjum mánuði og má sjá dagskrána framundan hér: Spjallfundir ADHD samtakanna.

Ef þú vilt ganga í ADHD samtökin, er hægt að gera það hér. Ganga í ADHD samtökin.

Hlökkum til að sjá ykkur sem flest.