Nú eru eflaust margir foreldrar uppiskroppa með hugmyndir um hvað er hægt að gera með krökkunum á þessum fordæmalausu tímum. Á internetinu er hægt að finna aragrúa af föndurverkefnum en naglalakkabollarnir eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér.

Þetta er einstaklega einfalt föndur og þarf maður einungis hluti sem margir eiga heima hjá sér. Ef þú átt ekki eitthvað á efnislistanum skal ég lofa að það er ekki dýrt.

Þannig að – einfalt, ódýrt og fullkomið föndurverkefni fyrir krakka að búa til gjafir fyrir ömmur og afa, frændur og frænkur.

Naglalakkabollar

Efnislisti:

Hvítir bollar
Naglalakk
Tannstönglar
Stórt plastílát sem þér er sama um
Eldhúsrúlla

Fyllið plastílátið af heitu vatni. Naglalakkið er fljótt að storkna og því heitara sem vatnið er, því betra.

Hellið nokkrum dropum af naglalakki í vatnið (hér má nota eins marga liti og maður vill). Haldið naglalakksflöskunni nálægt vatninu því annars geta droparnir fallið til botns. Nú þarf að hafa hraðar hendur og hræra í blöndunni með tannstöngli.

Dýfið botninum á bollanum í vatnið. Leyfið bollanum að vera í vatninu í smá tíma svo naglalakkið festist.

Takið bollann úr vatninu, snúið bollanum við og leyfið honum að þorna á eldhúsrúllupappír.

Gerist ekki mikið einfaldara!