Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri Akureyrarbæjar fer yfir stöðu mála í innsendri umfjöllun. Auðunn Níelsson tók myndina.

Þrátt fyrir alvarlega stöðu á Íslandi og í heiminum öllum, verður að teljast að frá Akureyri sé allt þokkalega gott að frétta. Hér hafa um 30 Covid-19 smit verið staðfest sem er umtalsvert minna en óttast var. Ekkert smit hefur greinst á Akureyri síðasta mánuðinn sem frábært. Þrátt fyrir það legg ég ofuráherslu á mikilvægi þess að fólk haldi vöku sinni svo allt okkar starf síðustu mánuði verði ekki unnið fyrir gýg. Heilt á litið held ég að Akureyringar hafi langflestir hlýtt öllum fyrirmælum og verið mjög varkárir. Fyrir það ber að þakka.

Mesta álagið hjá Akureyrarbæ hefur verið á Öldrunarheimilum Akureyrar, í velferðarþjónustunni og leik- og grunnskólum. Miklar breytingar hafa verið gerðar á þessari starfsemi til þess að tryggja samfellda þjónustu. Það hefur þurft að skipta starfsfólki í starfshópa og teymi þar sem ekkert samneyti er á milli og fjölga starfsmönnum tímabundið. Fólk hefur nær undantekningalaust brugðist vel við breyttum starfsháttum og er tilbúið að leggja sig allt fram við erfiðar aðstæður. Mæting barna í grunn- og leikskóla hefur verið 30-50% en verður með eðlilegum hætti frá 4. maí eins og annars staðar.

Ljóst er að allir þurfa að leggjast á eitt við að veita þróttmikla viðspyrnu nú þegar faraldurinn hefur nánast lamað mannlíf og  atvinnustarfsemi. Akureyrarbær lætur að sjálfsögðu ekki sitt eftir liggja og gert er ráð fyrir 4,4 milljörðum í ýmsar framkvæmdir á þessu ári. Staðan er metin dag frá degi og öll áhersla lögð á að hefja endurreisn sem fyrst.

Í byrjun apríl var tekin fyrsta skóflustunga að nýjum leikskóla í bænum og með ýmsum öðrum aðgerðum munum við komast fljótt aftur á réttan kjöl. Við flýtum ýmsum viðhaldsverkefnum og liðkum fyrir framkvæmdum í samvinnu við ríkið. Þar eru í farvatninu risastór verkefni á borð við stækkun flugstöðvarinnar okkar, nýtt hjúkrunarheimili og tvær nýjar heilsugæslustöðvar. Allt verður gert til að halda hjólum atvinnulífsins í sveitarfélaginu gangandi og vonandi verður hægt að lágmarka skaðann.

Með samhentu átaki síðustu vikur og mánuði hefur okkur Íslendingum tekist að hefta útbreiðslu Covid-19 faraldursins og nú hillir undir sigur í baráttunni. Miklu hefur verið fórnað, þetta hefur verið okkur dýrkeypt, en fyrr eða síðar fer landið aftur að rísa.

Smit voru tiltölulega fá á Akureyri en ennþá getur brugðið til beggja vona. Örlítið kæruleysi getur kveikt hópsmit og þess vegna verðum við að halda vöku okkar svo við missum ekki stjórn á aðstæðum því þá gætum við endað aftur á byrjunarreit. Það má ekki gerast.

Að því sögðu óska ég íbúum Akureyrar og Íslendingum öllum gleðilegs sumars.