Veitingafólkið Hrafnkell Sigríðarson, Kunsang Tsering, Erna Pétursdóttir, Eggert Gíslason Þorsteinsson og Lobsang Namgyal opnuðu þann 19. ágúst pop-up staðinn Dragon Dim Sum á Bergstaðastræti 4. Er þetta fyrsti staður Íslands sem er einvörðungu helgaður dumplings („smáhorn“ upp á íslenskuna), og þrátt fyrir afar litla auglýsingastarfsemi framan af hafa vinsældirnar síður en svo látið á sér standa. Þegar fulltrúa Fréttanetsins bar fyrst að garði í síðustu viku var stappfullt innandyra sem utan, og þurfti því spjallið að bíða betri tíma. Við náðum svo tali af Hrafnkeli og Kunsang nokkrum dögum seinna, og deildu þeir glaðir sögunni á bak við framtakið.

Aðspurður um hvernig hugmyndin kom til segir Hrafnkell, „Ég var að vinna sem kokkur í London, og við fengum alltaf frí á sunnudögum. Þá fórum við alltaf inn í Chinatown-hverfið og fengum okkur bjór og dumplings. Ég hafði mjög gaman af þessu og saknaði þess eftir að ég kom aftur heim. Svo einhverju síðar höfðum við á Mat Bar gert nokkur pop-up með Ramen Momo og Makake sem öll vöktu lukku, og þau höfðu alltaf séð um smáhornin.“

„Mat Bar á þetta rými og prepp eldhúsið okkar er á efri hæðinni hérna, þannig að við ákváðum að fyrst enginn annar væri að gera þetta, þá gætum við bara slegið til,“ segir Hrafnkell. „Við vissum að það væru ekki margir hérlendis sem virkilega kynnu að gera þetta rétt, eins og Kunsang, þannig að ég hugsaði með mér að hann og Erna [Pétursdóttir, eiginkona Kunsangs og meðeigandi Makake og Ramen Momo] yrðu að vera með, annars myndi þetta ekki ganga upp. Ég bar hugmyndina undir þau og svo fór þetta af stað þaðan.“

Aðspurður að því hvernig hafi gengið hingað til svarar Kunsang, „Við byrjuðum frekar vel, við getum alveg hiklaust sagt það. Við bjuggumst ekki alveg við svona miklum viðbrögðum.“

Var þetta þá vinsælt frá degi eitt? Varð sprenging undir eins, eða tók einhvern tíma fyrir orðið að berast?

„Það var svona vika sem tók fyrir þetta að taka við sér,“ segir Hrafnkell. „Í annarri viku varð mun meira að gera hjá okkur, svo var brjálað að gera í þriðju vikunni, og núna erum við að fara af stað með þá fjórðu. Þannig að við sjáum hvað setur.“

Hver er þá helsti munurinn á smáhornunum hér og á Makake?

„Það eru mjög mismunandi hráefni og fyllingar á milli staðanna,“ segir Kunsang. „Já, mismunandi stílar og öðruvísi brögð,“ segir Hrafnkell og bætir við, „Staðirnir eru líka frábrugðnir hvor öðrum, mismunandi hugmyndafræði um hvernig þeir fúnkera. Andrúmsloftið á Dragon Dim Sum er til dæmis meira eins og bar en veitingahús.“

Ef vel gengur áfram, eru einhver áform um að halda hugmyndinni við, umfram pop-up tímarammann?

„Hugmyndin hefur alveg komið upp hjá okkur, en við höfum ekki rætt málið sérstaklega mikið,“ segir Hrafnkell. „Ef þetta heldur áfram að ganga eins vel og hefur verið, þá eru allar líkur á að við setjumst niður og ræðum það betur. Skoðum hvernig þetta myndi virka til lengri tíma og hvernig væri hægt að láta allt saman ganga upp. Það er mikil vinna sem fer í þetta. Bara það að búa til smáhornin er gríðarleg vinna.“

Kunsang jánkar því. „Fólk hugsar oft um smáhorn sem skyndibita,“ segir hann, „en þetta er í raun og veru heljarinnar verk og gerist í mörgum skrefum.“

„Þetta er eiginlega algjört ástríðuverkefni hjá okkur,“ segir Hrafnkell. „Við erum bara að gera þetta af því okkur langaði til að gera þetta. Við vildum sjá hvort fólki myndi líka þetta, hvort þetta væri eitthvað sem væri hægt að færa Íslendingum, hvort fólk myndi almennt vera opið fyrir þessu.“

Ef marka má viðtökurnar hingað til, þá er svarið afgerandi já.

Dragon Dim Sum er opinn frá 17-21:30 miðvikudag til föstudags í hverri viku þar til í lok október.