Bandaríska geimferðamálastofnunin, NASA, gaf í síðasta mánuði út syrpu af myndum sem sýna ýmist innrautt ljós, radíóbylgjur og gammageisla. Kunna þær við fyrstu sýn að virðast eins og einhvers konar tölvugerðar teiknimyndir, en burtséð frá nauðsynlegri litakóðun og bylgjulengdarlagfæringum er hér um að ræða einhverjar raunsönnustu myndrænu túlkanir sem til eru á því hvernig vissir hlutar alheimsins okkar líta út. Skoðum nokkrar þessara tignarlegu mynda.

Parísarhjólsvetrarbraut

Hér má sjá smærri stjörnuþoku ferðast í gegnum aðra mun stærri. Höggbylgjan sem varð við þennan árekstur — sem við sjáum hér í fjólubláa gasinu sem röntgengeislar myndavélarinnar uppljóma — ferðaðist yfir 150.000 ljósára fjarlægð og varð hvati að mikilli stjörnumyndun.

Dansinn í Eta Carinae

Hér eru hinar tvær gríðarstóru stjörnur Eta Carinae-kerfisins á náinni braut í kringum hvor aðra. Margir stjörnufræðingar telja að þetta tvístirni verði næsta stjarna Vetrarbrautarinnar okkar til að verða sprengistjarna („supernova“).

Sprengistjarna í Stóra Magellanskýinu

Hér er um að ræða eina björtustu stjörnusprengingu sem átt hefur sér stað í mörg árhundruð. Hennar varð fyrst vart árið 1987 og fékk hún skjótt nafnið Supernova 1987A eða SN 87a. Hér má sjá höggbylgjuna frá sprengingunni dreifast út frá miðpunktinum yfir um það bil fjögurra ljósára svæði.

Messier 82

Messier-82 stjörnuþokan situr hér fyrir í öllu sínu veldi. Bláu og bleiku mynstrin sem sjást á myndinni eru óhemjustór: bláa svæðið í heild sinni spannar 20.000 ljósár frá toppi til botns og samanstendur mestmegnis af gastegundum sem leystst hafa úr læðingi við endurteknar stjörnusprengingar og eru meira en 5 milljón gráðu heitar.

Helix-geimþokan

Að lokum má hér sjá Helix-geimþokuna. Þegar stjarna eins og sólin okkar verður uppiskroppa með orkugjafa þá blæs hún út og ytri lögin flosna af henni, og því næst skreppur kjarni hennar saman. Þegar hér er komið sögu kallast þokan hringþoka („planetary nebula“).