Ein helsta frétt gærdagsins frá mótmælunum í Bandaríkjunum vegna dauða Georges Floyd var um atvik þar sem tveir lögreglumenn í varaliði Buffaló-borgar í New York-ríki sjást ýta við 75 ára gömlum manni, Martin Gugino, á Niagara-torgi. Við það fellur Martin aftur fyrir sig og slasast greinilega illa þegar höfuð hans skellur í gangstéttina.

Í fyrstu reyndi lögreglan að breiða yfir atvikið og sagði Martin hafa hrasað þegar lögreglan var í átökum við annan mótmælenda. Myndbönd sýndu að þetta var ekki sannleikanum samkvæmt og að Martin var ýtt. Ákváðu þá ríkisstjórinn Andrew Cuomo og borgarstjóri Buffaló-borgar, Byron Brown, að lögreglumennirnir tveir yrðu leystir frá störfum án uppsagnar- eða biðlauna.

Þetta fór illa í 57 liðsfélaga þeirra í varaliðinu sem sögðu mennina tvo aðeins hafa verið að sinna sínu starfi samkvæmt skipunum og hefði hver og einn þeirra getað lent í sömu aðstæðum og þeir. Þeir hefðu því allir sem einn ákveðið að segja sig frá störfum í varaliðinu.

Málið á nokkuð örugglega eftir að vinda upp á sig næstu daga, en það er bara eitt af mörgum í Bandaríkjunum þar sem myndbönd hafa verið tekin af lögreglumönnum beita mótmælendur valdi og ofbeldi sem mörgum finnst fara langt yfir strikið miðað við tilefnið.

Hér fyrir neðan má sjá umrætt atvik á Niagara-torgi en það gæti valdið viðkvæmum óhug.

Facebook-síða Martins A. Gugino.
Nánar um Martin A Gugino.