Svo virðist sem tíst Gregs Glassman, stofnanda og forseta CrossFit-samtakanna, á laugardaginn ætli að draga verulegan dilk á eftir sér, enda hafa stórir samstarfsaðilar eins og Reebok og meira en 50 heilsuræktarstöðvar sagt upp samstarfi við CrossFit í kjölfarið auk þess sem fjöldi CrossFit-iðkenda hafa fordæmt ummælin, þ. á m. þær Katrín Tanja Davíðsdóttir og Annie Mist Þórisdóttir og fjórfaldi CrossFit-meistarinn Rich Froning.

Tíst Gregs Glassman var svar við tísti rannsóknarstofunnar IHME í heilsutölfræði (Institute for Health Metrics and Evaluation) við Washington-háskóla í Seattle sem gaf það út að „rasismi og mismunun væru alvarleg lýðheilsumál sem krefðust áríðandi viðbragða.“

Þessu svaraði Greg með „Þetta er Floyd-19.“

Þetta virðist hafa verið kornið sem fyllti mælinn en áður hafði framkvæmdastjórn CrossFit-samtakanna legið undir ámæli fyrir að hafa Covid-19 faraldurinn í flimtingum, ekki síst fyrir að nota orðin „Flatten the curve“ sem auglýsingu fyrir líkamsrækt. Þess utan hafa deilur um jafnrétti áður skekið samtökin.

Og undanfarinn er lengri því í síðustu viku birti Alyssa Royse bréf sem hún hafði sent framkvæmdastjórn CrossFit þar sem hún útlistaði í smáatriðum þrjár helstu ástæðurnar fyrir því að líkamsræktarstöð hennar í Seattle, Rocket Crossfit (sem nú hefur verið breytt í Rocket Community Fitness), væri á barmi þess að slíta níu ára samstarfi sínu við CrossFit.

Þessu bréfi svaraði Greg Glassman á föstudaginn með tölvupósti sem hefur gert marga reiða enda inniheldur hann ekki efnislegt svar heldur gerir Greg lítið úr erindi Alyssu auk þess sem hann gerir beina, persónulega árás á hana. Sakar Greg Alyssu m.a. um illan ásetning og að hún eigi við geðræn vandamál að stríða.

Bæði bréfin, þ.e. bréf Alyssu til framkvæmdastjórnar CrossFit og svo svar Gregs má sjá hér.

Það var svo ofangreint tíst Gregs sem hleypti af stað skriðu samstarfsuppsagna sem ekki sér fyrir endann á.

Í gærkvöldi sendi Greg síðan frá sér eftirfarandi afsökunarbeiðni:

„I, CrossFit HQ, and the CrossFit community will not stand for racism. I made a mistake by the words I chose yesterday. My heart is deeply saddened by the pain it has caused. It was a mistake, not racist but a mistake.“

Hann útskýrði, eða reyndi að útskýra afstöðu sína nánar í fleiri tístum sem m.a. má sjá hér. Hvort það dugi til að lægja öldurnar eða hver verða næstu skref í málinu skal ósagt látið enda ljóst að tíst Gregs og bréf hans til Alyssu hefur þegar valdið miklu tjóni og álitshnekki fyrir CrossFit-samtökin.

 

View this post on Instagram

 

.

A post shared by Katrín Tanja Davíðsdóttir (@katrintanja) on