Þrátt fyrir að bæði Búrfellsvirkjun og Álverið í Straumsvík hafi í raun hafið framleiðslu á árinu 1969 fór formleg vígsla þeirra ekki fram fyrr en helgina 2. og 3. maí 1970 og eru bæði þessi stóriðjumannvirki því formlega fimmtug um þessar mundir.

Álverið í Straumsvík
Álverið í Straumsvík. Mynd: ÍSAL

Eftir að öll helstu fyrirmenni landsins og fjölmargir erlendir gestir höfðu mætt upp í Búrfellsvirkjun laugardaginn 2. maí 1970 til að fagna formlegri opnum og vígslu hennar voru þau mætt í Álverið í Straumsvík í sama tilgangi sunnudaginn 3. maí þar sem forsætisráðherrann dr. Bjarni Benediktsson, lagði hornstein að verksmiðjunni og iðnaðarráðherra, Jóhann Hafstein, flutti vígsluræðuna.

Talið er að um 700 manns hafi sótt vígluathöfnina í steypuskála álversins, þar á meðal öll ríkisstjórn Íslands, forsetahjónin Kristján Eldjárn og Halldóra Ingólfsdóttir, borgarstjórn Reykjavíkur með Geir Hallgrímsson borgarstjóra í broddi fylkingar, bæjarstjórn Hafnafjarðar og fulltrúar frá nánast öllum öðrum bæjar- og sveitasjórnum landsins. Gestgjafi athafnarinnar og kynnir var að sjálfsögðu forstjóri ÍSAL, Ragnar Halldórsson.

Merkar og sögulegar ræður

Að loknu ávarpi Halldórs H. Jónssonar, stjórnarfomanns ÍSAL, þar sem hann bauð gesti velkomna og eftir vígsluræðu Jóhanns Hafsteins, fluttu þeir Kristján Eldjárn, forseti, Jóhannes Norðdal, formaður stjórnar Landsvirkjunnar, Stefán Jónsson, forseti bæjarstjórnar Hafnafjarðar og Emanuel R. Meyer, stjórnarformaður Alusuisse, ræður sem áttu það sameiginlegt að vera fullar af bjartsýni á framtíð álversins og hag Íslendinga af því og jafnvel frekari stóriðju og tilheyrandi vatnsvirkjunum. Þess má þó geta að sá síðastnefndi notaði tækifærið í sinni ræðu til að kvarta yfir því hversu harðir íslensku samningamennirnir hefðu verið í öll þau ár sem samningaviðræður stóðu yfir og að Alusuisse hefði frá sínum sjónarhóli ekki náð nægilega hagstæðum samningi um raforkuverðið. Hann hvatti hins vegar til að Íslendingar skoðuðu alla möguleika á að fullvinna álið að hluta til sjálfir í hinar ýmsu vörur í stað þess að flytja það allt út.

Þess má geta fyrir áhugasama að allar ræður sem fluttar voru við vígslu bæði Búrfellsvirkjunnar og Álversins í Straumsvík voru birtar í heild sinni í aukablaði Morgunblaðsins 5. maí 1970 sem m.a. má nálgast á Tímarit.is, en það er jafnframt meginheimild þessarar stuttu greinar.

Í ljósi sögunnar og þess sem síðan hefur gerst í orku- og álmálum þjóðarinnar getur það ekki talist annað en áhugavert að lesa ræðurnar sem fluttar voru við vígsluathöfnina og ekki síður að skoða hvernig almenna stemningin fyrir stóriðju og frekari virkjunarframkvæmdum var á þessum tíma, bæði með og á móti, ekki síst vegna nýlegra frétta um á Álverinu í Straumsvík verði jafnvel lokað innan skamms.