Átjándu seríu söngvarakeppninnar American Idol lauk í gær á bandarísku ABC-sjónvarpsstöðinni þegar þeir fimm söngvarar (sjá mynd hér fyrir ofan) sem eftir voru í útsláttarkeppninni lögðu það undir dóm áhorfenda hvaða tveir af þeim kæmust í úrslitin.

Þegar það var orðið ljóst hófst annar hluti þáttarins þar sem endanlega var skorið úr um sigurvegarann með símakosningu.

Hann reyndist hin 21 árs gamla Samantha Diaz frá Harlem í New York, en hún notar sviðsnafnið Just Sam. Í öðru sæti varð hinn 23 ára gamli Dibesh Pokharel frá Wichita í Kansas en hann notar sviðsnafnið Arthur Gunn og er af nepölskum ættum.

Óhætt er að segja að keppnin í ár hafi verið með öðru sniði en venjulega enda batt kórónaveiran enda á þá tilhögun sem alltaf hefur verið, að sýna lokaþætti keppninnar beint af sviði með áhorfendum í sal.

Þess í stað var gripið til þess ráðs að setja upp sérstök svið í heimahúsum fyrir alla keppendur sem komist höfðu áfram áður en faraldurinn breytti öllu og var flutningur þeirra í lokaþáttunum tekinn upp fyrirfram, en viðbrögð álitsgjafanna, þeirra Katy Perry, Lukes Bryan og Lionels Richie, sýnd beint ásamt tilheyrandi símakosningum.

Hér fyrir neðan má sjá bæði lokalag þeirra tveggja sem kepptu til úrslita og fyrstu áheyrnarprufur þeirra þar fyrir neðan. Just Sam flytur lagið Rise Up sem Andra Day gerði vinsælt árið 2015 og Arthur Gunn flytur, sannarlega með sínu nefi, Have You Ever Seen The Rain, sem varð heimsfrægt í flutningi Creedence Clearwater Revival árið 1971.

Hér eru svo fyrstu áheyrnarprufur þeirra beggja:

Allar nánari upplýsingar um keppnina frá upphafi til enda má finna hér og allan flutning keppenda í öllum þáttunum á YouTube.

Mynd: Skjáskot.