Hinn 27 ára gamli Walter Marano hafði áformað að biðja kærustu sinnar, Sophiu Florio, á Ítalíu í sumar. Kórónufaraldurinn kom hins vegar og setti strik í reikninginn, og þegar fríið þeirra datt upp fyrir ákvað Marano að grípa til annarra ráða.

Hann kom í kring rómantískum kvöldverði á veitingahúsi í Fitzrovia í London, þar sem bornar voru á borð hjartalaga pizzur sem búið var að skrifa bónorðið á með deigi. Ekki tók langan tíma fyrir Florio að jánkast honum, og brutust út fagnaðarlæti á veitingahúsinu.

„Ég elska pizzu, þannig að þetta var hið fullkomna bónorð. Þetta var algjörlega óvænt. Ég hafði ekki hugmynd um hvað væri að fara að gerast,“ sagði Florio og bætti við að hún gæti ekki beðið eftir að eyða ævinni með Marano.

Hjúin áforma að halda brúðkaup sitt á Ítalíu árið 2022.