Sýningin inniheldur brot úr því myndasafni sem Brynjar hefur byggt upp síðastliðin ár. Hér er um að ræða einvörðungu myndir af fólki, og þá langmest svokallaðar portrettmyndir. Fréttanetið leit við hjá Brynjari á dögunum og átti stutt spjall við hann um sýninguna, feril hans og ljósmyndalistina almennt.

„Ég er búinn að vera að í svona tíu ár,“ segir Brynjar, aðspurður um byrjunina á ferli sínum. „Ég var rændur vídeókameru á flugvellinum úti í Barcelona, þannig að ég ákvað að kaupa mér nýja vél í staðinn, og sú var líka ljósmyndavél. Ég kunni ekkert á græjuna þannig að ég fór og talaði við Leif Rögnvalds, frænda minn, og spurði hann hvort hann gæti kennt mér á þetta. Hann spurði hvort ég vildi ekki bara koma í Ljósmyndaskólann. Ég spurði hann hvort hann væri eitthvað frá sér, að halda að ég ætlaði að fara að eyða einhverri milljón á ári í einhvern skóla. Hann sagði að við myndum nú finna eitthvað út úr því, ég gæti kannski skúrað í skólanum í staðinn fyrir skólagjöldin,“ segir Brynjar og hlær. „Ég útskrifast svo 2012.“

Megas. (Mynd: Brynjar Snær Þrastarson)

Aðspurður um sýninguna segir Brynjar, „Þetta er semsagt brot úr myndasafninu sem ég á. Ég var kominn með frekar mikið af prentum sem voru kannski ekki alveg fullkomin en samt of góð til að henda, þannig að ég ákvað að dúndra upp sýningu. Svo fékk ég styrk frá Canon. Þessi sýning er í raun Canon-sýning — allt tekið á Canon-myndavélar og Canon-linsur og prentað á Canon PRO-1000 prentara. Kaffibarinn var líka stór stuðningsaðili og þessi sýning er í raun aðallega í boði hans.“

Að sögn Brynjars mun sýningin breytast dag frá degi. „Á meðan á sýningunni stendur verð ég að prenta út á hverjum degi fullt af nýjum myndum, þannig að ég mun enda með að fylla plássið af myndum. Hún verður svo bara í gangi þangað til ég er rekinn héðan út,“ segir Brynjar. „Vinur minn á plássið og lánaði mér það, af því það var ekkert að gerast hér hvort eð er, þannig að um leið og það kemur leigjandi hérna inn þá fer ég út. Svo getur líka vel verið að ég taki þetta niður og hleypi einhverjum öðrum hérna inn með sýningu í staðinn. Þá er þetta rými allavega alltaf lifandi.“

Á sýningunni verður hægt að kaupa prent af veggnum á 15 þúsund krónur, eða prent á hágæða A2 pappír fyrir 25 þúsund krónur. Einnig er á svæðinu ljósabúnaður þannig að fólk getur fengið mynd af sér hjá Brynjari.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

En hvað er það mikilvægasta við gott portrett? „Það bara fer eftir manneskjunni,“ segir Brynjar. „Stundum talar maður við fólk, segir eitthvað fyndið jafnvel. Yfirleitt er best að bíða bara þangað til fólk er tilbúið. Vera ekkert að flýta sér, bara anda aðeins og vera ekkert að ýta á takkann á fullu. Ég er búinn að umgangast mikið af fólki og ég veit svona meira og minna hvenær það er að sýna alvöru hlið. Ég bíð bara þangað til fólk er búið að gera sína speglasvipi,“ segir Brynjar kíminn. „Svo þegar þú ert ekki að fylgjast með þá reyni ég að ná myndinni.“

Edda Björgvinsdóttir og Bill Murray. (Mynd: Brynjar Snær Þrastarson)

Hvað er það sem gefur mest við iðjuna? Brynjar hugsar sig um í dálitla stund. „Fjölbreytileikinn,“ segir hann að lokum. „Maður fær að sjá alla flóru mannlífsins og hitta mikið af áhugaverðu fólki.“ Aðspurður um sérstaklega minnistæð augnablik í gegnum tíðina svarar hann, „Ætli það sé ekki að taka mynd af Vigdísi Finnbogadóttur heima í stofu hjá henni, eða að vera uppi á sviði með Public Enemy.“

Hvað áhrifavalda varðar segist Brynjar ekki vita með áhrifavalda beinlínis, en nefnir til nokkra ljósmyndara sem honum þykja sérstaklega góðir. „Sigurgeir [Sigurjónsson] og RAX [Ragnar Axelsson]. Einar Snorri [Einarsson] og Eiður Snorri [Eysteinsson] voru alltaf að gera flotta hluti þegar ég var yngri. Ég var samt ekkert að spá neitt í ljósmyndun þá, og svo voru þeir farnir út þegar ég byrjaði eitthvað að spá í þessu. En þeir gerðu mjög mikið af flottum myndum, fannst mér,“ segir hann.

„Sigurgeir gerði líka mjög flottar myndir af fólki hérna í gamla daga, áður en hann fór í landslagið. Ekki það að mér finnist ekki landslagsmyndirnar hans flottar líka, en þær eru svona ekki alveg minn stíll.“

Myndi hann þá segja að portrett-myndataka væri sérgrein hans? „Bara fólk almennt,“ segir Brynjar. „Ég tek aldrei mynd sem er ekki fólk á. Ég sé ekki tilganginn.“

Hljómsveitin Hatari. (Mynd: Brynjar Snær Þrastarson)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sýningin „Brot úr myndasafni“ er til húsa við Laugaveg 7 og er rýmið opið alla daga frá 16-21.