Þann 21. september síðastliðinn varð goðsögnin Bill Murray sjötugur að aldri, og á hann eins og flestir vita að baki gríðarlega langan og blómlegan feril. Fréttanetið lagðist því undir feld með tuttugu og einum álitsgjafa sem öll eiga það sameiginlegt að vera miklir aðdáendur þessa einstaka leikara, og eftir hávísindalega gagnagreiningu leit dagsins ljós tíu bíómynda listi sem inniheldur að mati hópsins þær allra bestu. En nóg um formálann — vindum okkur í þetta.

 

10. Coffee & Cigarettes (2003)

Leikstjóri: Jim Jarmusch

Hér er á ferð: Lauslega tengd sería ellefu styttri þátta þar sem rauði þráðurinn er, eins og nafnið gefur til kynna, kaffi og sígarettur. Þetta verður að teljast cameo-hlutverk hjá okkar manni, þar sem hann er einungis tæpar fimm mínútur á skjánum allt í allt.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Allir í myndinni leika sjálfa sig og samræður eru meira og minna leiknar af fingrum fram, og það er einfaldlega stórkostlegt að fylgjast með Bill Murray spjalla við RZA og GZA úr Wu-Tang Clan.

Góð lína: „Do not swallow. You spit it out. Don’t swallow, Bill Murray.“

Skemmtileg staðreynd: Þetta var í fyrsta sinn sem Murray vann með leikstjóranum Jim Jarmusch, en auk þessarar hefur hann leikið í tveimur myndum í fullri lengd eftir kauða.

 

9. Kingpin (1996)

Leikstjórar: Peter & Bobby Farrelly

Hér er á ferð: Sprenghlægileg grínmynd úr smiðju sjokkmeistara tíunda áratugarins, Farrelly-bræðranna.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Auk Murrays eru hérna Randy Quaid og Woody Harrelson í banastuði, og er Kingpin jafnan álitin hápunktur groddalegs og drepfyndins Farrelly-húmorsins. Einnig er hún afar skemmtileg blanda af mismunandi geirum — smávegis rómantísk gamanmynd, smávegis íþróttamynd, smávegis ferðasaga.

Góð lína: „It’s a small world when you’ve got unbelievable tits, Roy.“

Skemmtileg staðreynd: Murray lék af fingrum fram nær allar línur sínar í myndinni.

 

8. Scrooged (1988)

Leikstjóri: Richard Donner

Hér er á ferð: Nútímaleg uppfærsla á ævintýri Charles Dickens um Skrögg gamla, „A Christmas Carol.“

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Murray er hér í hlutverki sem hentar hæfileikum hans fullkomlega. Í byrjun er hann siðlaus skíthæll og því fær svipbrigðalaus kaldhæðnin sem hann er svo góður í að njóta sín til fullnustu. Þegar líður svo á og persónan byrjar að mildast þá kemur til sögunnar hæfileiki hans til að fá áhorfendur með sér í lið og túlka breytinguna á karakternum af mikilli list. Fáir gætu farið með þetta hlutverk betur en Murray. Þar að auki á hann í þessari mynd eitt fyndnasta hras kvikmyndasögunnar.

Góð lína: „Niagara Falls, Frankie angel.“

Skemmtileg staðreynd: Hrasið sem minnst var á hér að ofan er sagt hafa verið raunverulegt en ekki leikið, og á að hafa orsakast af því að trappan var blaut eftir að Murray hafði skvett vatni yfir þjóninn fyrr í atriðinu. Dæmi hver fyrir sig, en eitt er víst að þetta er stórkostlega fyndið fall.

 

7. The Royal Tenenbaums (2002)

Leikstjóri: Wes Anderson

Hér er á ferð: Grátbrosleg harmsaga stórkostlega skrautlegrar fjölskyldu, undir umsjón eins sérstakasta leikstjóra samtímans.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Þetta frábæra gamandrama (ef svo má að orði komast, þar sem flestar myndir Andersons beygja sig ekki svo glatt undir neina eina skilgreiningu) er listilega tekið og fallega skrifað, og auk Murrays skartar myndin breiðri flóru af snilldarleikurum, s.s. Gene Hackman, Gwyneth Paltrow, Luke og Owen Wilson, Anjelica Huston og Ben Stiller.

Góð lína: „I’m very sorry for your loss. Your mother was a terribly attractive woman.“

Skemmtileg staðreynd: Persónan sem Murray leikur, Raleigh St. Clair, er byggður á hinum virta taugasálfræðingi Oliver Sacks, en Wes Anderson er mikill aðdáandi hans.

 

6. Rushmore (1999)

Leikstjóri: Wes Anderson

Hér er á ferð: Upphafið á sællegu samstarfi Murray og Wes Anderson, en hafa þeir gert sjö heilar bíómyndir saman síðan. Oft hefur verið sagt að Anderson-kaflinn hafi markað nýtt upphaf fyrir Murray og opnað nýjar leiklistarvíddir fyrir honum, og er heillandi að fylgjast með því byrja að gerast hér.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Rushmore er skarplega skrifuð og meinfyndin, og hvergi er hnökur að finna á vel samsettu leikaraliðinu. Auk þess er tónlistin sérstaklega góð.

Góð lína: „Hello, Magnus. I’d have shot you in the other ear, but it got blown off a long time ago.“

Skemmtileg staðreynd: Þegar hann las handritið varð Murray svo hrifinn að hann krafðist þess að leika í Rushmore ókeypis. Hann endaði með að taka að sér verkefnið fyrir lægstu dagslaun sem SAG (Screen Actor’s Guild) leyfðu, og áætlað er að hann hafi fengið um 9000 dollara fyrir myndina allt í allt.

 

5. What About Bob? (1991)

Leikstjóri: Frank Oz

Hér er á ferð: Bráðskemmtileg svört kómedía um þráhyggjukvalinn kvíðasjúkling sem verður of hændur að geðlækni sínum og endar með að elta hann í frí, þar sem fjölskylda hins síðarnefnda tekur ástfóstri við hann.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Bill Murray leikur mann með fjöldamargar geðraskanir, sem er auðvitað forskrift að allskonar svartri kæti. Richard Dreyfuss er einnig stórkostlegur í hlutverki geðlæknisins, og handritið fleygir fram gullmolum með reglulegu millibili.

Góð lína: „Roses are red, violets are blue, I’m a schizophrenic, and so am I.“

Skemmtileg staðreynd: What About Bob hefði getað verið gjörsamlega allt önnur bíómynd hefði upprunalegt leikaraval gengið eftir. Robin Williams átti að leika aðalhlutverkið en þurfti að draga sig í hlé eftir að hafa gert Fisher King, og Patrick Stewart átti á tímabili að leika geðlækninn geðvonda.

Sjá einnig: „Fimmtán 90s-myndir sem þú gætir hafa gleymt

 

4. The Life Aquatic (2004)

Leikstjóri: Wes Anderson

Hér er á ferð: Ein af umdeildari myndum Wes Anderson. The Life Aquatic fjallar um skipstjóra að nafni Steve Zissou, sem gerir heimildamyndir um sjávarlíf en er farinn að missa fótanna í faginu. Þegar félagi hans er étinn af hákarli leggur hann sjó undir kjöl og heldur af stað í leit að kvikindinu, ásamt ungum manni sem kveðst vera sonur hans.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Þó hún hafi fengið heldur dræmar undirtektir fyrst um sinn hefur The Life Aquatic hægt og rólega klifið til vegs og virðingar meðal bíóunnenda síðastliðin fimmtán ár. Hér eru Murray og Anderson að ná nýjum hæðum í samstarfi sínu, og er þetta að margra mati þeirra albesta samvinnuverkefni. Gullfalleg kvikmyndataka eins og er Andersons von og vísa, og sérstaklega vel valið í aukahlutverkin.

Góð lína: „Oseary, this is probably my son Ned.“

Skemmtileg staðreynd: Renzo Pietro, hljóðmaður Zissou, er leikinn af raunverulegum hljóðmanni myndarinnar, Pawel Mdowczak. Í atriðum þar sem hann sést ganga um með hljóðnema var hljóðneminn raunverulega í gangi og náði rauntímahljóðupptökum af samræðum og öðru sem síðar var svo notað í myndinni.

 

3. Ghostbusters (1984)

Leikstjóri: Ivan Reitman

Hér er á ferð: Klassík sem vart þarf að kynna fyrir neinum. Murray, Harold Ramis, Dan Aykroyd og Ernie Hudson leika hér frækið fjóreyki sem stofnsetja fyrsta draugahreinsunarfyrirtæki New York þegar ill öfl taka að herja á borgina.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Þetta er einfaldlega ein besta gamanmynd allra tíma. Hún hefur allt — leiftrandi handrit, framúrskarandi grínleik, afbragðstæknibrellur fyrir sinn tíma, og stórkostlega tónlist. Það er ekki hægt að horfa á Murray verða slímaðan af græna kvikindinu og ekki hafa gaman af því. Það er bara ekki hægt.

Góð lína: „Ray. If someone asks if you are a god, YOU SAY YES!“

Skemmtileg staðreynd: Ekki beinlínis staðreynd um myndina sjálfa, en of gott til að minnast ekki á: hið víðfræga þemalag myndarinnar eftir Ray Parker Jr. hlaut endurklippingu að nafni „Bustin“ sem setti internetið nokkurn veginn á hliðina þegar það kom út 2015. Þó eru margir sem ekki hafa heyrt þetta afburðaverk og látum við það því fljóta með hér, enda er myndbandið líka stórgóð upprifjun á þessari ódauðlegu mynd:

 

2. Lost in Translation (2003)

Leikstjóri: Sofia Coppola

Hér er á ferð: Hæglát og angurvær saga um týndan mann í framandi landi sem kynnist álíka týndri manneskju, og tengjast þau sterkum böndum sem áhorfandinn nær þó aldrei að setja neinn afgerandi stimpil á. Sofia Coppola leikstýrir af fádæma snilld þessari algerlega einstöku mynd, einni af fáum þar sem Murray dempar aðeins gríntilbrigðin (en slekkur þó aldrei á þeim) og á í staðinn stórleik í kyrrþey. Hlaut hann Óskarsverðlaunatilnefningu fyrir vikið.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Lost in Translation hefur til að bera draumkennt andrúmsloft sem fyrirfinnst hvergi annarsstaðar og þykir fanga stemmningu Tokyo-borgar fullkomlega. Skrifin eru gullfalleg, ekki síst fyrir þá hluti sem látnir eru ósagðir, og vann Coppola til Óskarsverðlauna fyrir handritið. Myndataka og tónlist eru með öllu óaðfinnanleg.

Góð lína: „Let’s never come here again because it will never be as much fun.“

Skemmtileg staðreynd: Persónur Murray og Johansson eiga ekki orðaskipti fyrr en rúmlega hálftími er liðinn af myndinni, og þau kynna sig aldrei fyrir hvort öðru.

 

1. Groundhog Day (1993)

Leikstjóri: Harold Ramis

Hér er á ferð: Blæbrigðarík og djúpheimspekileg saga vafin inn í staðlaða grínmyndaumgjörð. Murray er hér á hápunkti krafta sinna sem kaldhæðinn, veraldarvanur og lífsleiður skíthæll sem sér lítinn tilgang í öðru en sjálfum sér, en sá rammi umhverfist á dásamlegan hátt þegar fram líða stundir. Og þær líða jú fram, og fram, og fram. Og aftur fram.

Sjáðu hana aftur vegna þess að: Groundhog Day er ein af þessum myndum sem hægt er að horfa á tuttugu sinnum og sífellt taka eftir nýjum smáatriðum. Handritið er stappfullt af stórkostlegum gullmolum og leikstjórnin neglir þeim undantekningarlaust beint í mark. Leikstjórinn, Harold Ramis heitinn, sem lék draugabanann Egon Spengler á móti Murray í Ghostbusters, vann náið með Murray í gegnum allt tökuferlið. Þó svo það samstarf hafi endað frekar illa á milli þeirra tveggja persónulega, þá varð afraksturinn samt sem áður ein sígildasta gamanmynd allra tíma. Fórn sem þeir eiga skilið þökk fyrir að færa, frá öllum bíóunnendum — þá, nú hér og ávallt. Og á morgun, og hinn daginn.

Góð lína: „Do you ever have deja vu, Miss Lancaster?“ -„I don’t know, but I could check with the kitchen.“

Skemmtileg staðreynd: Í atriði einu nálægt lokum myndarinnar má sjá bregða fyrir í örhlutverki kornungum Michael Shannon, leikara sem hefur á undanförnum áratug gert garðinn frægan fyrir að túlka einna helst alls kyns vitskerta þorpara og illmenni. Hér er hann þó í öllu saklausari rullu:

 

Þessar komust næstum inn á lista:

Caddyshack, The Man Who Knew Too Little, Grand Budapest Hotel, Broken Flowers, Quick Change.

Álitsgjafar:

Anna Ásthildur, tónlistarfagkona; Ásgeir Þór Jónsson, veitingamaður og bakari; Ástþór Ágústsson, leikari og rafvirkjanemi; Birgir Páll Auðunsson, kvikmyndagerðarmaður; Bragi Þór Hinriksson, leikstjóri; Frímann Kjerúlf Björnsson, myndlistarmaður og eðlisfræðingur; Guðjón Bjarni Snæland, atvinnumaður; Gústaf Berg, nemi og barþjónn; Héðinn Þór Haraldsson, verkefnastjóri; Hinrik Þór Svavarsson, leikstjóri og leiðsögumaður; Ingibergur Ingibergsson Edduson, bíóunnandi; Jón Erlingur Guðmundsson, aðstoðarforstöðumaður; Jón Stefán Sigurðsson, sýningarstjóri hjá Þjóðleikhúsinu; Katla Ásgeirsdóttir, plötusnúður; Katrín Proppé Bailey, grínisti og textasmiður; Lee Lorenzo Lynch; kvikmyndagerðarmaður; Ómar Sverrisson, ljósmyndari; Pétur Gautur Magnússon, kvikmyndagerðarmaður; Stefán Friðriksson, leikjahönnuður; Tómas Valgeirsson, bíórýnir og ritstjóri Kvikmyndir.is; Valdimar Kúld, kvikmyndagerðarmaður.