Revival

Fyrst nefnum við að leikstjórinn og handritshöfundurinn Mike Flanagan, sem síðast sendi frá sér myndina Doctor Sleep, framhaldið af The Shining, er að skrifa handrit að myndinni Revival, en hún er eins og þær fyrrnefndu einnig byggð á bók eftir Stephen King.

Sagan, sem kom út í nóvember 2014, er í stuttu máli um fyrrverandi prestinn Jacobs sem missti trúna eftir að eiginkona hans og dóttir létust í slysi. Hann gerist um síðir heilari og í ljós kemur að í þeim bransa er hann gæddur hæfileikum sem eru nánast yfirskilvitlegir. En verða þeir til góðs eða ills?

Ný mynd frá M. Night Shyamalan

Leikstjórinn og handritshöfundurinn M. Night Shyamalan, sem síðast sendi frá sér myndina Glass, hefur ráðið í helstu hlutverk sinnar næstu myndar sem hefur þó ekki enn hlotið heiti.

Um hvað myndin fjallar veit heldur enginn nema aðstandendur enn sem komið er, en þau sem hafa verið ráðin í helstu hlutverkin eru Thomasin McKenzie, sem síðast lék í Jojo Rabbit og þar á undan í Leave No Trace, Alex Wolff, sem lék m.a í Hereditary og Jumanji-myndunum, Eliza Scanlen, sem við sáum síðast leika Beth March í Little Woman og Vicky Krieps, sem lék Ölmu í Phantom Thread.

Verður athyglisvert að sjá hvað Shyamalan er að sjóða saman en hann nýtur þeirra áunnu forréttinda að geta fjármagnað sínar myndir sjálfur og vera því með algjört listrænt frelsi í sköpun sinni. Um leið eru honum allar dyr opnar inn í stóru dreifingarfyrirtækin þar sem myndir hans hafa ávallt skilað hagnaði. Það er staða sem fáir leikstjórar hafa getað státað af.

The Matrix 4

Grænt ljós er komið á áframhaldandi vinnu við gerð fjórðu Matrix-myndarinnar eftir að skellt var í lás á tökustað í mars vegna kórónaveirunnar og virðast þau sem að myndinni standa bara bjartsýn á að áður ákveðinn frumsýningardagur, 21. maí 2021, muni halda. Hann hefur alla vega ekki enn breyst frá því sem var.

Enn sem komið er hefur lítið sem ekkert frést um söguna og því eru margir að reyna að giska á hvernig þau Neo og Trinity verða vakin aftur til lífsins eftir að hafa dáið í lok myndar númer þrjú, Revolutions. Eða dóu þau kannski ekki?

Það er að sjálfsögðu Keanu Reeves sem leikur Neo og Carrie-Anne Moss snýr einnig aftur sem Trinity. Um leikstjórn sér Lana Wachowski en systir hennar, Lilly Wachowski, er hvergi sjáanleg á kreditlistanum og við vitum ekki hvers vegna. Þær systur gerðu fyrri þrjár myndirnar saman, en þá sem Wachowski-bræður.

John Wick 4

Hins vegar hefur annarri Keanu Reeves-mynd, fjórðu John Wick-myndinni, verið frestað um a.m.k. ár, en henni hafði eins og Matrix 4 verið úthlutaður frumsýningardagur í maí á næsta ári, nánar tiltekið 27 maí. En það er sem sagt „off“ núna skv. nýjustu fréttum og við munum þurfa að bíða, a.m.k. til maí 2022, eftir að sjá hvað John Wick tekur sér næst fyrir hendur.

Ekki hefur verið gefin nein sérstök ástæða fyrir þessari ársfrestun umfram áhrif kórónaveirunnar en svo virðist sem vinnslan hafi í raun ekki verið komin langt. Hvorki leikstjóri né handritshöfundur hafa verið nefndir og enginn leikari ráðinn annar en Keanu. Giska menn á að önnur verkefni sem hann hefur á könnunni hafi haft áhrif á ákvörðunina.

Avatar

Af framleiðslu annarra þekktra mynda sem fóru í kórónaveirustopp en eru komnar í gang aftur má svo nefna margmilljarðaverkefni James Cameron, Avatar-myndirnar fjórar, en þær á að frumsýna á tveggja ára fresti á næstu árum, þ.e. 2021, 2023, 2025 og 2027.

Saman eru þessar myndir langstærsta kvikmyndaverkefni allra tíma, bæði að umfangi og í peningum. Vinnsla þeirra hefur að langmestu leyti farið fram á Nýja-Sjálandi þar sem þúsundir hafa unnið að þeim beggja vegna myndavélanna í nokkur ár. Það var því ansi stórt áfall að þurfa að pakka saman vegna veirunnar og það er áreiðanlega mikið verk að koma öllu til að rúlla eðlilega aftur.

Lánið í óláninu er að Nýja-Sjáland er á meðal þeirra landa sem hvað vægast hafa farið út úr kórónafaraldrinum. Eru aðeins um 1.500 smit staðfest í landinu þannig að þar ríkir nokkuð meiri vissa en víðast annars staðar um að ekki muni koma til frekari lokana vegna veiruskrattans.

Scarface

Universal Pictures hafa ráðið ítalska leikstjórann Luca Guadagnino til að leikstýra nýrri mynd um eiturlyfjakónginn Antonio „Tony“ Camonte, öðru nafni Scarface, eftir sögu Maurice R. Coons frá árinu 1929, en Maurice skrifaði undir höfundarnafninu Armitage Trail. Var sagan að hluta til byggð á ævi Als Capone.

Scarface var kvikmynduð í leikstjórn Howards Hawks árið 1932 og svo aftur árið 1983 í leikstjórn Brians De Palma þar sem Al Pacino lék Tony … og hét reyndar Montana að eftirnafni þar en ekki Camonte.

Það var Oliver Stone sem skrifaði handrit 1983-myndarinnar, en í þetta sinn eru það Coen-bræðurnir Joel og Ethan sem skrifa, eða kannski öllu heldur endurskrifa drög að handriti sem þeir Gareth Dunnet-Alcocer, Jonathan Herman og Paul Attanasio höfðu skrifað saman. Munu þeir sennilega allir fimm verða skrifaðir fyrir handritsgerðinni.

Luca Guadagnino, sem á m.a. að baki myndirnar A Bigger Splash, Suspiria og Call Me By Your Name, er fyrir utan þessa nýju Scarface-mynd með tvær aðrar myndir í bígerð, annars vegar Blood on the Tracks sem byggð er á textum samnefndrar plötu Bobs Dylan og hins vegar myndina Find Me sem er framhald Call Me By Your Name.

American Son

Þá hefur Paramount-kvikmyndarisinn ráðið breska leikstjórann Andrew „Rapman“ Onwubolu til að leikstýra myndinni American Son en hún er byggð á frönsku myndinni A Prophet sem Jacques Audiard gerði árið 2009 og fékk frábæra dóma og fjölmörg verðlaun.

Reyndar hefur bandarísk endurgerð A Prophet legið í loftinu í Hollywood í mörg ár og hugmyndin gengið á milli kvikmyndaframleiðenda án þess að látið væri til skarar skríða. En nú er sem sagt komið að því og því til staðfestingar hefur Russell Crowe verið ráðinn í eitt aðalhlutverkið, sennilega hlutverk glæpaforingjans Césars Luciani sem einnig varð „lærifaðir“ aðalpersónunnar, Maleks, en átti eftir að sjá eftir því.

Don’t Worry Darling

Það fjölgaði um einn, eða réttara sagt eina, í leikhópi myndarinnar Don’t Worry Darling á dögunum þegar Dakota Johnson gekk til liðs við þau sem þegar voru búin að skrifa undir, þ.e. Florence Pugh, Shia Labeouf og Chris Pine.

Myndin er í leikstjórn Oliviu Wilde sem einnig leikur í henni og er sögð sálfræðitryllir sem gerist í litlu samfélagi einhvers staðar í Bandaríkjunum á sjötta áratug síðustu aldar.

Talsverðar væntingar virðast vera í loftinu um að þessi mynd eigi eftir eftir að gera það gott en handritið, sem er eftir bræðurna Carey og Shane Van Dyke, þykir víst alveg frábært. Það skemmir ekki að Olivia Wilde fékk mikið lof fyrir leikstjórn sinnar fyrstu myndar, Booksmart, og hafa menn mikla trú á að hún muni sanna með nýju myndinni að það var engin heppni.

Þess ber að geta að þeir Van Dyke-bræður eru synir leikstjórans Barrys Van Dyke og þá um leið sonarsynir hins 94 ára eilífðarunglings, Dicks Van Dyke.

Artemis

Artemis nefnist næsta mynd þeirra Phils Lord og Chris Miller en þeir eru einna þekktastir fyrir 21 og 22 Jump Street-myndirnar, The Lego Movie og Spider-Man: Into the Spider-Verse. Artemis er byggð á nýjustu vísindaskáldsögu Andys Weir (The Martian) sem kom út 2017 og fékk mikið lof. Var hún m.a. valin besta vísindasaga ársins hjá Goodreads og seldist kvikmyndaréttur hennar reyndar talsvert áður en hún kom út.

Vinnsla myndarinnar er ekki langt komin en tók skref áfram í fyrradag þegar Ryan Gosling var ráðinn í aðalkarlhlutverkið, en ekki er komið í ljós hver leikur aðalsöguhetjuna, Jazz.

Sagan gerist í borginni Artemis sem er fyrsta stóra borgin á tunglinu. Jasmine „Jazz“ Bashara er sendill sem stundar smygl sem hliðargrein til að hafa í sig og á. Dag einn fær hún gott atvinnutilboð frá auðugum viðskiptajöfri, Trond Landvik, en það snýst um að aðstoða hann við að kippa fótunum undan samkeppnisaðila svo Trond geti sjálfur tekið við viðskiptum þeirra.

Að sjálfsögðu fer áætlunin úrskeiðis og Jazz lendir í aðstæðum sem hana hefði aldrei grunað að hún ætti eftir að þurfa að glíma við.

Og að lokum …

Að lokum viljum við nefna nokkrar framhaldsmyndir í bígerð sem við munum vonandi fjalla um síðar. Erum við þar að tala um fimmtu Scream-myndina, Sonic the Hedgehog 2, nýja Transformers-mynd, District 10 (framhald af District 9), Indiana Jones 5, þriðju Fantastic Beasts-myndina, Rush Hour 4, Gremlins 3, Triplets (framhald af Twins), Austin Powers 4, 23 Jump Street, Sherlock Holmes 3, Beetlejuice 2, McClane (framhald af Die Hard-myndunum), Gladiator 2, Pirates of the Caribbean 6 og Space Jam 2.

Hvort af gerð allra þessara mynda verður á eftir að koma í ljós.

Forsíðumynd: Denise Jans / Unsplash

Aðrar myndir: Wiki