Barnaskólakennari að nafni Julia Koch frá Michigan-fylki í Bandaríkjunum framdi á dögunum frekar óvenjulega hetjudáð þegar hún bjargaði lífi Cynthiu Phillips, ömmu einnar nemenda sinna.

Koch var með bekkinn sinn í fjarkennslu í Edgewood-barnaskólanum í bænum Muskegon Heights þegar hún fékk símtal frá ömmu eins nemanda síns, sem átti í tæknilegum vandamálum með tölvu barnabarnsins og gat því ekki tengst fjarkennslunni. Koch tók hins vegar eftir öllu alvarlegra vandamáli, en henni þótti gamla konan helst til þvoglumælt.

„Það var ljóst að eitthvað mikið var að,“ sagði Koch. „Orðin komu öll út í einhverri flækju og ég gat ekki skilið hvað hún var að reyna að segja. Hún hljómaði ekki eins og hún sjálf.“

Koch gerði skólastjóranum, Charlie Lovelady, viðvart og hringdi hann í neyðarlínuna — Philips var að fá heilablóðfall.

„Ég þekkti einkenni heilablóðfalls vegna þess að ég missti föður minn úr heilablóðfalli þannig að ég sagði henni að bíða og náði strax í hjálp fyrir hana,“ sagði Koch.

Philips er enn á spítala, en búist er við að hún lifi af. „Takk fyrir að bjarga lífi mínu,“ sagði hún. „Ef þau hefðu ekki náð í hjálp fyrir mig, þá væri ég bara ekki hér.“

„Ég er gríðarlega stolt af bæði Frk. Koch og Hr. Lovelady, skjótum viðbrögðum þeirra og orkunni sem þau hafa veitt í að rækta sambönd við nemendur og fjölskyldur á þessum nýju tímum,“ sagði Rane’ Garcia, forstöðukona skólasviðs Muskegon Heights. „Þau eru að hafa marktæk jákvæð áhrif á líf nemenda okkar og fjölskyldna þeirra.“