Ástralinn James Suibhne, sem er suður-afrískur að uppruna, er áhugamaður um margt, þ. á m. um sögu. Hann rekur  YouTube-rás þar sem hann hefur um fjögurra ára skeið dundað sér við að búa til sínar eigin teiknimyndir, m.a. um sögu hinna ýmsu landa og þjóða. Eru áskrifendur rásarinnar nú um 357 þúsund.

Þessar teiknimyndir hafa margar hverjar notið mikilla vinsælda, enda skemmtilega gerðar og fullar af húmor, og hafa þær vinsælustu, sögur Rússlands, Þýskalands, Spánar, Póllands, Írlands, Finnlands, Skotlands, Frakklands og Kína, allar fengið yfir milljón áhorf og allt upp í 4,3 milljónir áhorfa.

Animated History

Auk þeirra hefur hann gert samskonar teiknimyndasögur um Ítalíu, Japan, Brasilíu, Króatíu, Danmörku, Svíþjóð, England, Hong Kong, Holland og heimalandið, Ástralíu.

Fyrir um mánuði sendi hann svo loksins frá sér Sögu Íslands, þar sem hann fer á 14 mínútum yfir merka atburði í Íslandsögunni, allt frá landnámi til Þorskastríðanna. Við sjáum ekki betur en að James hafði aflað sér nokkuð traustra heimilda, en um það getur auðvitað hver og einn dæmt upp á eigin spýtur. Þegar þetta er skrifað hefur myndbandið fengið 194 þúsund áhorf.

Kíkið á Sögu Íslands hér fyrir neðan en við viljum taka fram að James notar rásina í atvinnuskyni og því eru bæði beinar og óbeinar auglýsingar í upphafi og enda myndbandsins.