Þrjár írsk-nígerískar stúlkur frá Drogheda á austurströnd Írlands unnu á dögunum til verðlauna fyrir app sitt, sem ber heitið Memory Haven og er ætlað til hjálpar þeim sem þjást af elliglöpum, sem og þeim sem standa þeim næst til aðstoðar.

Hinar sautján ára gömlu Joy Njekwe og Margaret Akano, ásamt hinni fimmtán ára gömlu Rachael Akano, báru sigur úr býtum meðal 1500 keppenda frá 62 löndum í árlegri keppni sem nefnist Technovation World Summit.

Lærimeistari þeirra er kona að nafni Evelyn Nomayo, stofnandi samtakanna Phase Innovate, sem hafa það að markmiði að þjálfa og koma á framfæri einstaklingum úr minnihlutahópum sem hafa ekki fengið tilskyldan hljómgrunn hingað til á sviðum tækni og viðskipta.

Kveikjan að appinu var að miklu leyti til reynsla Nomayo af baráttu móður hennar við elliglöp. „Móðir mín byrjaði að eiga við glöp fyrir þremur til fjórum árum síðan,“ sagði hún við NPR-fréttastofuna. „Fyrsta skipti sem ég áttaði mig á því að eitthvað væri að var þegar hún byrjaði að sjá ofsjónir. Hún bjó í Bandaríkjunum en hún hélt oft að hún væri í Nígeríu. Eitt skipti hafði ég gefið henni efni til að sauma úr, og ég sá sársaukann í augunum á henni af því hún var búin að gleyma hvernig ætti að gera það.“

„Hún hafði verið saumakona, en hún gat ekki saumað lengur. Þannig að teymið okkar náði að nýta þessa reynslu mína til að búa til tækni sem gæti hjálpað öðrum.“

Appið leitast við að meðhöndla þrjá algengustu kvillana sem orsakast af elliglöpum: málörðugleika, minnistap, og minnkaða getu til að bera kennsl á fólk. Meðal annars má þar finna „playlista“ af tónlist sem notast við andlits- og raddþekkingartækni til að finna til tónlist sem passar við hugarástand notandans hverju sinni, og neyðarhnapp til að kalla á hjálp ef vandi steðjar að.

Í appinu má einnig finna ljósmyndasafn sem gerir notendum kleift að fara í gegnum myndasafn af fólki sem er þeim mikilvægt í lífinu, sem og ýmsa minnisleiki sem ætlaðir eru til að ýta undir vitsmunavirkni. Auk þess eru áminningarfítusar sem minna bæði einstaklinginn og umönnunaraðila á atriði eins og læknistíma og lyfjagjöf.

„Markmið okkar er bara að hjálpa eins mörgum og hægt er,“ sagði Akano við BBC. „Við vonum að einn daginn nái þetta út um allan heim, til milljóna manns sem þjást af elliglöpum, og geri líf þeirra aðeins auðveldari.“