Í fyrsta lagi áhrif sem liggja á kortinu til miðs mánaðar og svo áhrif sem liggja á kortinu síðustu tvær vikur mánaðarins. Vissulega er styrkur í kortinu allan mánuðinn, því nú hefur Júpiter (ráðandi pláneta bogmanns) tekið sér stöðu innan bogmannsins og stendur þar vörð um öll hans mál – sér í lagi mál sem varða börnin hans, stuðning, heilsu, útlit og status – og verður þar sterkur til tuttugasta nóvember þessa árs. Eins situr Venus mjög sterkur í húsi sambanda allan ágúst og ef þú elsku bogmaður ert ekki í sambandi mun ástin banka uppá í ágúst. Njóttu og treystu því nú er tíminn til að njóta og elska.

Það er þó einhver bruni í hjartastað fyrri hluta mánaðar – óróleiki, eirðarleysi og mögulega sorg vegna sjálfsmyndar, barna, hugarlífs, innkomuskorts (karma þessa árs) og/eða eignamála.

Sólarstaða er erfið og skapar óheppni, þröskulda, varnarleysi og möguleg veikindi til miðs mánaðar en eftir miðjan mánuðinn færa sig bæði Mars og Sól, orku og framkvæmdapláneturnar báðar og það á kraftmeiri stað sem skapar mjög jákvæða og áþreifanlega framvindu fyrir bogmanninn. Ef líðan, staðan þín og framvinda einkennast af stöðnun og vanlíðan fyrri hluta ágúst, skaltu aðeins anda, fara inná við og hafa þig hægan, því eftir miðjan mánuð muntu sjá heppni, mikla uppskeru og meðbyr á nánast öllum sviðum. Bogmannskortið verður í heild sinni afar sterkt og meðbyr ætti að sýna sig á mikinn og margvíslegan máta.