Ráðandi pláneta bogmannsins er nálægt mörkum tveggja merkja og hefur verið síðustu mánuði, þetta eitt og sér skapar óstöðugleika í tengslum við bogmanninn og þá sérstaklega í málefnum tengdum heimilinu, hjartanu og móður. Júpíter er einnig í mikilli nærveru við Plútó allan júní mánuð og leggst á sömu gráðu þann 29. júní og þetta mun skapa mikið varnarleysi í stöðu mála, þar sem valdið verður svipt frá þér og mikil óvissa mun ríkja í þínum málum. Millibilsástand skapast svo í kjölfarið en stefnan verður ekki almennilega ljós fyrr en 13. september þegar Júpíter fer fram á við á ný. Plútóáhrif á plánetu fjórða húss skapar líka tilfinningar á borð við kvíða, óöryggi og varnarleysi. Ég hvet þig kæri bogmaður til að skapa þér rútínu stöðugleika, með nægum tíma til slökunar, hugleiðslu og hvíldar.

Ástarmál bogmannsins eru ekki mikið til að hrópa húrra fyrir þetta sumarið en Venus hefur plantað sér á erfiðum stað. Það má segja að það sé mótsögn í kortinu í sumar, því Rahu í sjöunda húsi bogmannsins er að skapa honum mikla þrá til að vera í sambandi og í samskiptum við aðra, en rétt á meðan Venus staldrar við í heila fjóra mánuði í nautinu munu ástarmálin vera sorgum þrungin og erfið. Reyndu að anda með vinstri nösinni elsku vinur og einbeittu á skapandi skrif og einhvers konar þjónustu rétt á meðan. Staða Venusar hefur einnig hefur áhrif á félagslíf bogmannsins og vinir gætu tekið sér stöðu sem óvinir og/eða áhrifaríkur aðili. Farðu gætilega í samskiptum til júlíloka og reyndu að sitja þennan tíma af þér. Það versta sem maður gerir undir erfiðum plánetum áhrifum er að reyna að þvinga fram einhverjar breytingar og stýra hlutum í betri farveg. Stundum er einfaldleikinn einfaldlega málið og þetta er slíkur tími. Venus er þó á frábærum stað til að efla sköpun í starfi, sem og betra peningaflæði og hvers kyns samstarf við konur á þessum tíma til lok júlí. Listrænir bogmenn gæti upplifað gríðarlega grósku á þessum tíma.