Írski tónlistarmaðurinn Paul David Hewson, sem flestir þekkja betur sem Bono, varð sextugur í gær, 10. maí, og er óhætt að segja að kveðjurnar til hans, sem komu úr öllum áttum, hafi skipt hundruðum þúsunda, ef ekki milljónum.

Sjálfur fagnaði hann tímamótunum með verulega frumlegum hætti þegar hann birti lista á netinu yfir 60 lög sem hann segir að hafi bjargað lífi sínu. Búið er að raða þessum lista upp hjá hinum ýmsu tónlistarveitum og ef smellt er hér getur fólk valið um á hvaða veitu það rennir yfir listann eða hlustar.

Er óhætt að fullyrða að a.m.k. sum lögin á listanum muni koma aðdáendum hans á óvart.

Um leið birti Bono eftirfarandi yfirlýsingu sem útskýrði málið:

Bono statement - 60 songs that saved my life

Eins og þarna kemur fram hyggst Bono skrifa bréf 60 bréf sem útskýra valið og upplifun hans af viðkomandi lagi fyrir flytjendum og höfundum og hvernig þau björguðu honum hvert og eitt í gegnum árin. Í þeim tilfellum sem flytjendur eða höfundar eru horfnir á braut mun hann stíla bréfin á annað hvort aðstandendur eða helstu fulltrúa viðkomandi.

Hefur hann þegar birt fyrstu sex bréfin og eru móttakendur þeirra þau Alicia Pavarotti, dóttir stórsöngvarans, Billie Eilish og bróðir hennar, Finneas, Duncan, sonur Davids Bowie, Massive Attack og Shara Nelson, Daft Punk og Pharrell Williams og meðlimir Kraftwerks.

Í bréfinu sem hann t.d. skrifar Duncan Bowie segir hann (í lauslegri þýðingu):

„Kæri Duncan.

Þegar ég heyrði lag pabba þíns, Life on Mars? í útvarpinu 1973 var ég í felum undir rúmteppinu mínu í 10 Cedarwood Road að hlusta á sjóræningjastöð sem hét Útvarp Caroline. Ég var ekki að hugsa um spurningamerkið í heiti lagsins … ég var ekki að láta dramatísku fyrirspurnina um hvort líf væri á Mars? trufla mig… Lagið var að svara mun mikilvægari spurningu þegar ég var 13 ára… Er vitrænt líf á Jörðu? Það sannaði að svo var hvað mig varðaði.

Takk fyrir að deila pabba þínum með öllum þessum sálum eins og mér sem hann fyllti upp á barma.

Þinn aðdáandi, Bono.“

Þetta bréf og hin fimm má sjá hér fyrir neðan:

Þau 54 bréf sem eru eftir munu birtast á U2.com á næstu dögum/vikum og verða alveg örugglega, rétt eins og þessi sex hér fyrir ofan, forvitnileg og upplýsandi.

Mynd: Fabio Diena / Shutterstock.com