Meira en 20 ár eru liðin síðan Sacha Baron Cohen færði okkur fyrst hinn óviðjafnanlega óviðeigandi kazakska fréttamann Borat Sagdiyev. Lítið hefur þó heyrst frá kappanum síðan fyrri bíómynd hans, Borat! Cultural Learnings of America for Make Benefit Glorious Nation of Kazakhstan kom út árið 2006.

Senn lýkur þó þeim þurrki. Borat Subsequent Moviefilm: Delivery of Prodigious Bribe to American Regime For Make Benefit Once Glorious Nation of Kazakhstan mun streyma á Amazon Prime-efnisveitunni frá og með 23. október, og var fyrsta stikla myndarinnar gerð opinber nú á dögunum.

Hér er eftirlætisfréttaritari okkar allra mættur aftur til Bandaríkjanna, í þetta sinn með dóttur sína í för. Ferðalag hans gerist í okkar undarlega nútíma, sem er óhjákvæmilega litaður af COVID-19 ástandinu og erfiðu ástandi í ójöfnu samfélagi. Ferðinni er heitið til að hitta varaforseta Bandaríkjanna, Mike Pence, í þeim tilgangi að múta honum með dóttur Borats og fá þannig fram velvild og greiðasemi Bandaríkjanna gagnvart Kazakstan.

Eins og allar framhaldsmyndir stendur Borat Subsequent Moviefilm frammi fyrir þeirri áskorun að þurfa að gera betur en forveri hennar, en ef einhver getur mögulega staðið undir þeim væntingum þá er það meistari Sacha Baron Cohen. Þetta verður svo sannarlega eitthvað.

Sjáið stikluna hér: