25 ára gamall nemi að nafni Paul Kuhn braust fyrr á árinu inn í Ástralska safnið (“The Australian Museum”) í Sydneyborg í Ástralíu, að því er virðist í þeim tilgangi að smella af sér nokkrum vel völdum sjálfsmyndum með risaeðlunum. 

Kuhn tók sér dágóðan tíma í að rölta um safnið. Allt í allt var hann um 40 mínútur á svæðinu og þótti gera sig ansi heimakominn. Hann stal meðal annars kúrekahatti sem var í eigu starfsmanns safnsins og tók mynd af sér inni í skoltinum á Tyrannosaurus Rex-eðlu. Svo virtist í gegnum allt saman eins og hann væri ekkert að hugleiða myndavélakerfið sem fylgdist með honum.

Lítið mál var því fyrir lögreglu að hafa uppi á honum — hún einfaldlega birti myndskeiðið á internetinu og bað almenning um aðstoð. Honum sjálfum til sóma gaf Kuhn sig fram að fyrra bragði og alls möglunarlaust.

Uppátækið vakti talsverða lukku meðal íbúa svæðisins, og eru fleiri dæmi um það að fólk hafi viljað bjóða honum upp á bjór frekar en að stunda einhverja sjálfskipaða spæjarastarfsemi. Lögreglunni á svæðinu var þó ekki beinlínis hlátur í hug, eins og gefur að skilja.

Til allrar hamingju hlaust þó sáralítill eiginlegur skaði af atvikinu. 21 milljón ómetanlegir ástralskir sögumunir fengu að vera alveg í friði fyrir óboðna gestinum, þrátt fyrir að hann hefði nælt sér í kúrekahatt og veggmynd.

Kuhn losnaði síðar úr varðhaldi gegn tryggingu, en þurfti að sæta bæði vegabréfssviptingu og útgöngubanni.