Heilbrigðisyfirvöld í Tævan hafa sektað filippseyskan mann um tæplega 450 þúsund krónur fyrir að brjóta sóttkví í heilar átta sekúndur. Öryggismyndavélar á hóteli náðu brotinu á filmu og var það í kjölfarið tilkynnt til yfirvalda. Sagt er frá málinu á vef Huffington Post.

Samkvæmt tævanska ríkisfjölmiðlinum Central News Agency, CNA, kom maðurinn til borgarinnar Kaohsiung í síðasta mánuði. Í Tævan er 14 daga sóttkví skylda fyrir þá sem sækja landið heim, en maðurinn braut þá sóttkví þann 13. nóvember síðastliðinn þegar hann yfirgaf hótelherbergið sitt til að skilja eitthvað eftir fyrir utan hurð á hótelherbergi vinar síns á sama gangi.

Starfsmenn hótelsins höfðu fengið þau fyrirmæli að fylgjast grannt með hótelgestum í sóttkví og tilkynntu brotið til yfirvalda.

Aðgerðir stjórnvalda í Tævan vegna heimsfaraldurs COVID-19 hafa verið afar harðar en örfá kórónuveirusmit hafa komið upp í landinu. Um 23 milljónir manna búa í Tævan en aðeins 716 tilvik COVID-19 hafa verið greind síðan í upphafi faraldursins.