Þekkt er á allnokkrum tungumálum orðtakið að búa undir steini, sem vísar alla jafna til einhvers sem hefur látið áberandi samfélags- eða dægurmál látið framhjá sér fara. Bókunarvefsíðan Hotels.com býður nú upp á nýstárlega lausn fyrir kjósendur vestanhafs sem eru langþreyttir á kvíðaástandinu sem þar ríkir um þessar mundir: fólki er bókstaflega boðið að búa undir steini.

Ferðin býðst frá öðrum nóvember til þess sjöunda og felur í sér að fólk flytjist í manngerðan helli fimmtán metrum undir jörðinni í Nýja Mexíkófylki í Bandaríkjunum. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er þetta „fullkomið tækifæri fyrir þau sem eru að upplifa kosningarstreituröskun.“

„Þegar þið eruð búin að kjósa þá getið þið tékkað ykkur út úr samfélagsmiðlaneikvæðninni og tékkað ykkur inn í helli sem byggður hefur verið 50 fet undir jörðinni,“ sagði á síðunni. Fyrirtækið mun einnig bjóða upp á 20 prósenta afslátt á ferðum sem innihalda orðið „rock“ í nafninu.

„Stjórnmálaþreyta er raunveruleg, þrátt fyrir hvaða ár eða hvaða kosningar um ræðir,“ sagði Josh Belkin, varaforseti fyrirtækisins. „Við erum að breyta gömlu orðatiltæki í raunverulega upplifun, svo einstaklingar geti slakað á, endurhlaðið sig og náð sér… af því hver veit hvað annað 2020 er með í sarpinum fyrir okkur.“