Drengur einn frá Memphis í Tennessee-fylki í Bandaríkjunum, Jackson Oswalt, hefur komist í Heimsmetabók Guinness fyrir heldur óvenjulegt afrek, en honum tókst að framkalla kjarnasamruna einungis nokkrum klukkustundum fyrir þrettán ára afmæli sitt.

Samkvæmt Guinness er Oswalt, sem nú er orðinn fimmtán ára gamall, yngsta manneskja heims til að ná að framkalla kjarnasamruna. Fulltrúar frá Guinness staðfestu á dögunum að hann hefði byggt sinn eigin samrunakjarnaofn á heimili fjölskyldu sinnar og notað hann til afreksins, á síðustu metrunum sem tólf ára einstaklingur.

„Ég notaði rafmagn til að hraða tveimur tvívetnisatómum svo þau runnu saman í helíum-3 atóm og losuðu líka nifteind, sem er svo hægt að nota til að hita upp vatn og snúa gufuvél, og þannig búa til rafmagn,“ sagði Oswalt.

Hann tók einnig fram að hann hefði verið sá eini sem kom að byggingu ofnsins, þó svo hann hafi ekki alltaf verið sannfærður um að tilraunin myndi ganga upp. Í byrjun skildu vinir hans og fjölskylda ekki hvað hann var að reyna að gera, en hann hélt áfram þrátt fyrir efasemdirnar og sannfærði á endanum fólkið sitt um að áform hans væru ekki bara raunhæf heldur þaulúthugsuð.

COVID-19 faraldurinn hefur haldið Oswalt innandyra eins og mörgum öðrum, en hann hefur verið duglegur við að kynna sér þann aragrúa lærdóms og lesefnis sem hægt er að finna á internetinu. Þó svo hann sé stoltur af Guinness-afrekinu þá er hann meira og minna hættur að framkvæma rannsóknir. Í staðinn er hann að leita að „næsta besta hlut.“ Áhugavert verður að sjá hvað þessi ungi snillingur tekur sér fyrir hendur næst.

Sjáið myndskeiðið hér að neðan: