Ástralska leikkonan Cate Blanchett virðist með afbrigðum afkastamikil þessi dægrin og fyrir utan að hafa verið í stanslausum verkefnum 2018 og 2019 (eftir að hafa tekið því rólega á árinu 2017) hefur hún raðað inn nýjum verkefnum á planið á þessu ári, svo mörgum og viðamiklum að nafn hennar kemur nú áberandi oft upp þegar fréttir af nýjum myndum eru skoðaðar.

En hverjar eru þessar myndir sem Cate ætlar að leika í á árinu? Við ákváðum að skoða það.

Nightmare Alley í leikstjórn Guillermos del Toro

Guillermo del Toro
Guillermo del Toro.
Mynd: GuillemMedina / Wikipedia

Eftir að hafa tiltölulega nýlega lokið við að leika í tveimur sex- og níu-þátta sjónvarpsseríum, Stateless og Mrs. America, og þar á undan í mynd Richards Linklater, Where’d You Go, Bernadette, er Cate nú um stundir að leika í næstu mynd leikstjórans og Óskarsverðlaunahafans Guillermos del Toro (Shape of Water), Nightmare Alley.

Nightmare Alley sækir efnið í samnefnda bók (og margir segja meistaraverk) bandaríska rithöfundarins Williams Lindsay Gresham sem kom út árið 1946. Aðalpersónurnar eru viðsjárverður svindlari að nafni Stanton „Stan“ Carlisle (Bradley Cooper) sem hefur nánast alla sína „starfsævi“ lifað á því að blekkja fólk og er fyrir löngu orðinn ansi góður í því.

Nigtmare Alley bók
Bókin kom út árið 1946. Mynd: Wikipedia.

Dag einn hittir Stan sálfræðinginn dr. Lilith Ritter (Cate Blanchett) sem hrífst af hæfileikum hans og fer fljótlega sjálf að hugsa sér gott til glóðarinnar. Saman setja þau svo upp blekkingarvef sem er ætlað að fanga auðugan bílaframleiðanda að nafni Ezra Grindle (Richard Jenkins) í þeim tilgangi að svíkja af honum stórfé. En þeir sem stunda blekkingar mega alltaf búast við að dag einn verði þeir sjálfir blekktir!

Þess má geta að sagan var kvikmynduð strax árið eftir að hún kom út, þ.e. 1947, og var með Tyrone Power í hlutverki Stans og Helen Walker í hlutverki Lilith. Hún hefur einnig verið gefin út sem teiknimyndasaga og sett upp sem leikrit.

Með helstu hlutverk í nýju myndinni fyrir utan þau Bradley, Cate og Richard fara Rooney Mara, Mary Steenburgen, Toni Collette, Willem Dafoe, David Strathairn og Ron Perlman.

Ekki er komin nein dagsetning á frumsýningu myndarinnar og ef kórónaveiran stöðvar ekki eða tefur framleiðsluna á ný (hlé var gert á tökum í mars og apríl) þá ætti hún að vera tilbúin fljótlega á næsta ári. Ekki er samt enn loku fyrir það skotið að það náist að frumsýna hana í desember eins og upphaflega stóð til að gera. Við sjáum til og bætum bæði þessari mynd og þeim sem eru hér fyrir neðan í samantektina okkar yfir væntanlegar myndir þegar búið er að gefa upp áætlaðaða frumsýningardaga.

Don’t Look Up eftir Adam McKay

Adam McKay
Adam McKay.
Mynd: Harald Krichel / Wikimedia

Næst mun Cate svo leika í mynd Adams McKay, Don’t Look Up, sem lýst hefur verið sem satíru og væri það í anda síðustu mynda hans, Vice og The Big Short. Don’t Look Up er þó ekki byggð á sönnum atburðum eins og þær tvær en hún er um tvær áhugakonur um stjörnuskoðun (Cate og Jennifer Lawrence) sem uppgötva að risastór loftsteinn muni skella á Jörðinni eftir um sex mánuði með tilheyrandi … ja, sennilega heimsendi, eða a.m.k. mikilli katastrófu.

Myndin fjallar síðan um tilraunir vinkvennanna til að koma þessari vitneskju til skila til fjölmiðla og stjórnvalda, en það á víst ekki eftir að ganga mjög vel.

Sjálfur hefur Adam sagt að sagan, sem hann er höfundur að, sé undir áhrifum ádeilumynda eins og Wag the Dog, Doctor Strangelove og Network. Myndin er framleidd af Netflix en svo gæti farið að hún verði einnig sýnd í kvikmyndahúsum.

Borderlands eftir Eli Roth

Eli Roth
Eli Roth.
Mynd: Bev Moser / Wikimedia.

Þar á eftir mun Cate leika í geim-, vísinda- og hasarmyndinni Borderlands, en hún er byggð á samnefndri tölvuleikjaseríu sem notið hefur mikilla vinsælda allt frá árinu 2009 þegar fyrsti leikurinn kom út. Síðan hafa komið út þrír Borderlands-leikir, þar af sá nýjasti í september á síðasta ári.

Myndin gerist á plánetunni Pandoru og þótt fyrirmyndin sé sótt í leikina er sagan ný. Hún segir frá konu að nafni Lilith (já, sama nafn og karakter Cate í Nightmare Alley) sem leggur upp í áhættusamt ferðalag til að bjarga stúlku að nafni Tina úr klóm innrásarliðs og nýtur til þess aðstoðar ýmissa karaktera sem þeir sem hafa spilað leikina þekkja, svo sem Amöru, Moze, Zane og FL4K auk þess sem fleiri slíkir verða kynntir til sögunnar í myndinni að því er okkur skilst.

Leikstjóri er Eli Roth sem sendi síðast frá sér myndirnar The House with a Clock in Its Walls og Death Wish, en ekki liggur fyrir hverjir aðrir en Cate Blanchett leika í myndinni.

Lucy and Desi eftir Aaron Sorkin

Aaron Sorkin
Aaron Sorkin.
Mynd: IDominic / Flickr

Næsta mynd Cate er svo um grínleikkonuna og frumherjann Lucille Ball sem m.a. framleiddi og lék í grínþáttaseríunum I Love Lucy, The Lucy Show, Here’s Lucy, and Life with Lucy á árunum 1953 til 1968. Þessir þættir nutu á sínum tíma fádæma vinsælda í Bandaríkjunum og víðar, m.a. hér á landi í árdaga íslensks sjónvarps og þóttu mjög fyndnir.

En Lucille var einnig fyrsta konan til að koma á legg sínu eigin framleiðslufyrirtæki í sjónvarpsþáttabransa Bandaríkjanna, Desilu Productions, sem framleiddi marga aðra þekkta sjónvarpsþætti, t.d. Star Trek og Mission Impossible.

Þar með er bara upptalið brot af afrekum Lucille Ball og má kynna sér þau nánar á t.d. Wikipediu.

Lucille Ball og Desi Arnaz.
Mynd: Wikimedia

Nafn myndarinnar, Lucy and Desi, bendir sterklega til að myndin muni fyrst og fremst fjalla um samband Lucille og eiginmanns hennar, Desi Arnaz. Desi var tónlistarmaður frá Kúbu og hermir sagan að þau hafi orðið ástfangin við aðra sýn, þ.e. daginn eftir að þau hittust fyrst árið 1940.

Ekki leið á löngu uns þau voru gengin í hjónaband sem varð fljótlega mjög stormasamt, svo stormasamt reyndar að Lucille sótti um skilnað 1943. Af honum varð þó ekki þar sem þau náðu sáttum. Hjónabandið hélt þó áfram að vera stormasamt á köflum og endaði í skilnaði árið 1960.

Desi var samt alltaf virkur þátttakandi í öllu sem Lucille tók sér fyrir hendur og átti stóran þátt í velgengni hennar þegar hún byrjaði að hasla sér völl í bandarísku sjónvarpi og sjónvarpsþáttagerð um 1950. Eftir að þau skildu héldu þau samt áfram viðskiptasambandinu með góðum árangri.

Handritshöfundur og leikstjóri myndarinnar er Aaron Sorkin og er þetta önnur myndin sem hann leikstýrir á eftir Molly’s Game (2017). Nafn hans er þó mun tengdara handritsgerð en Aaron skrifaði m.a. handrit myndanna A Few Good Men, Money Ball, The Social Network og Steve Jobs. Þessi handrit hlutu öll margháttuð verðlaun.

Cate mun að sjálfsögðu leika Lucille en á þessari stundu hefur ekki verið gefið upp hverjir leika önnur hlutverk í myndinni sem Amazon framleiðir.

Armageddon Time eftir James Gray

James Gray.
Mynd: Martin Kraft / Wikipedia

Að lokum ætlar Cate svo að leika í myndinni Armageddon Time eftir James Gray sem sendi síðast frá sér myndina Ad Astra og þar á undan myndir eins og The Lost City of Z, The Immigrant, Two Lovers, The Yards og Little Odessa. Óhætt er að fullyrða að þær teljist allar til betri mynda.

Ekki liggur annað fyrir um söguþráðinn í Armageddon Time en að hann er að stórum hluta byggður á eigin minningum James Gray frá uppvaxarárum sínum í Queens-hverfi New York borgar. Við verðum því að láta það nægja í bili.

Ekki liggur heldur fyrir hvern hann hefur hugsað sér að ráða í aðalkarlhlutverkið, né neitt um aðra leikara í myndinni fyrir utan Cate Blanchett.

Allt getur breyst

Allar þessar myndir sem hér hafa verið nefndar voru á upptökuáætlun ársins 2020 áður en kórónaveiran tók að herja á heimsbyggðina og eru þær enn allar á plani þótt veiran hafi vissulega raskað miklu núna í mars og apríl.

Planið gæti að sjálfsögðu breyst án fyrirvara og eftir því sem hlutirnir fást staðfestir munum við eins og sagði hér að ofan bæta nánari umfjöllun um þessar myndir á væntanlega-listann.

En þá vitið þið sem sagt hvers vegna nafn Cate Blanchett er í þriðju hvorri frétt frá Hollywood um þessar mundir.

Forsíðumynd: magicinfoto / Shutterstock.com