Charlie Daniels var fæddur í Norður-Karólínuríki Bandaríkjanna í október 1936 og lét snemma að sér kveða á kántrí-, rokk- og bluegrass-tónlistarsviðinu, bæði sem sólólistamaður, með hljómsveitum sem hann stofnaði og sem stúdíó- og „session“-maður, en Charlie var meistari strengjahljóðfæranna og lagði þar mesta áherslu á gítar-, banjó-, mandólín- og fiðluleik.

Alþjóðlega er Charlie sennilega þekktastur fyrir stórsmellinn The Devil Went Down to Georgia sem kom út á plötunni Million Mile Reflections árið 1979 og færði Charlie m.a. Grammy-verðlaunin fyrir sönginn. Innan Bandaríkjanna var hann þó þá þegar, og fyrir löngu, orðinn þjóðþekktur og þá ekki síst á meðal kollega sinna í bransanum.

Charlie spilaði m.a. með Bob Dylan og Leonard Cohen og átti stóran þátt í velgengni frumkvöðlanna í The Marshall Tucker Band sem blönduðu saman kantrírokki, djassi og blues-tónlist svo úr varð það sem oft er kallað „suðurríkjarokk“. Má segja að The Marshall Tucker Band hafi plægt jarðveginn fyrir t.d. The Allman Brothers, ZZ Top og Lynyrd Skynyrd.

Charlie Daniels er minnst með miklum hlýhug og virðingu. Hér fyrir neðan má sjá stutt en skemmtilegt myndband þar sem farið er yfir hluta af ævistarfi Charlies, en það var sett saman í tilefni af áttræðisamæli hans árið 2016.