Í júní síðastliðnum tók Netflix til sýninga þáttaröðina Cobra Kai, en hún kom fyrst út á YouTube Red streymisrásinni 2018. Hér er á ferð stórskemmtileg sería sem gerist í heimi hinnar ástsælu bíómyndar Karate Kid frá árinu 1984, nema spólað er áfram í nútímann. Fáum við að fylgjast með annars vegar aðalpersónu myndarinnar, Daniel (Ralph Macchio) og hins vegar andstæðingi hans Johnny (William Zabka), sem hann sigraði svo eftirminnilega með trönusparkinu fræga hér forðum.

William Zabka í hlutverki Johnny Lawrence.

Nú er sjónarhóllinn hins vegar færður yfir á Johnny, og má segja að hann sé í raun söguhetjan hér frekar en Daniel, þó vissulega sé fylgst með þeim báðum. Johnny gengur illa í lífinu, er fráskilinn og á son sem hatar hann, drekkur of mikið og tollir ekki í vinnu. Eftir að hann bjargar eineltisfórnarlambi frá barsmíðum nokkurra hrekkjusvína ákveður hann að þjálfa unglinginn, og fer svo að hann opnar á ný Cobra Kai-æfingasalinn. Daniel er hins vegar búið að vegna vel í lífinu, á keðju af lúxusbílasölum og hefur það gott fjárhagslega, þó svo hann sé ekki alveg að ná að tengjast börnunum sínum nógu vel. Í gegnum kynduga atburðarás sem ekki verður tíunduð hér taka líf þessara fornu fjandmanna að flækjast saman á nýjan leik. 

Serían tekur sjálfri sér aldrei of alvarlega og alltaf er stutt í húmorinn, en þó leynist undir niðri nett flétta af vangaveltum og spurningum: Getum við einhverntímann losað okkur alveg við drauga fortíðarinnar? Geta manneskjur raunverulega breyst? Hvað gerir einhvern að góðri eða vondri manneskju? Þessar spurningar og fleiri eru rauður þráður sem skýtur alltaf upp kollinum við og við inn á milli alls húmorsins og frábærra bardagatriðanna. Skrifin sjálf eru tiltölulega einfeldningsleg og lítið um subtexta, en einfaldleikinn þjónar sínum tilgangi fullkomlega innan níunda-áratugar andrúmsloftsins, og skemmtanagildið er alltaf haft í öndvegi. Óhætt er að segja að Cobra Kai sé prýðilegasta afþreying fyrir nánast hvern sem er, enda eru þættirnir búnir að slá rækilega í gegn síðan þeir lentu á Netflix.

Ralph Macchio í hlutverki Daniel LaRusso.

Lærðu of hratt

Bardagaatriði þáttanna eru eins og áður sagði framúrskarandi góð, og deildi bardagahönnuður þeirra, Hiro Koda (sem einnig gegndi sömu skyldu í þáttunum Stranger Things), athyglisverðri sögu um þjálfunarferlið í viðtali við poppkúltúrbloggið The Beat

“Kunnáttan [hjá krökkunum] jókst jafnt og þétt þar sem þau voru öll ný í byrjun og voru að læra bardagalistirnar samhliða sögupersónunum þeirra. Það erfiða var að sum þeirra urðu mjög góð mjög hratt, og við þurftum að draga þau aðeins til baka og segja ‘Sko, þú mátt ekki alveg vera svona góð(ur) strax. Þú verður að hægja aðeins á og ekki líta svona vel út.’”

“En svo vorum við með Billy Zabka og Ralph Macchio, sem höfðu verið þjálfaðir fyrir upprunalegu myndina, þannig að í þeirra tilfelli þurfti bara aðeins að dusta af þeim rykið.”

Cobra Kai er hægt að nálgást á efnisveitunni Netflix, og kemur þriðja sería þáttaraðarinnar út árið 2021. Hægt er að sjá stiklu fyrir þættina hér: