Tímaritið Time hefur hafið yfirferð sína á árinu 2020, enda nálgast lok þess óðfluga. Meðal þess sem blaðamenn ritsins hafa tekið saman eru bestu lög ársins sem er að líða.

Lagið Think About Things með Daða Frey og Gagnamagninu skipar sér í sjötta sæti á listanum, en eins og alþjóð veit átti lagið að vera framlag Íslands til Eurovision á þessu ári áður en keppninni var aflýst. Er það talinn mikill heiður að lenda á listum Time yfir það besta hverju sinni.

„Lagið er bæði fönkí og framtíðarlegt, Think About Things er hið fullkomna heilalím: hlý, ástúðleg sneið af elektrópoppi með tælandi hljóðgervilslínu, grípandi viðlag og grúví bassa,“ skrifar blaðamaður Time um lagið. Hann fer einnig yfir hvernig lagið sló í gegn um heim allan í kjölfar þess að Eurovision-keppninni var aflýst og er það engum ofsögum sagt. Think About Things bar sigur úr býtum í ýmsum gervi Eurovision-keppnum og hefur verið í spilað í heimsþekktum sjónvarpsþáttum.

Þá fór á stað dansáskorun þegar að heimsfaraldur COVID-19 reið yfir og fólk í einangrun í sóttkví deildi myndböndum af sér taka dansinn við lagið.

„Lagið var skrifað um barnunga dóttur listamannsins og skilaboðin um skilyrðislausa ást og blíða forvitni slær á rétta strengi langt fyrir utan glimmerhlaðið Eurovision-sviðið,“ stendur í umsögn Time.

Á meðal annarra laga á listanum eru WAP með Cardi B og Megan Thee Stallion, Little Nokia með Bree Runway og Good News með Mac Miller. Á toppi listans trónir lagið People I’ve Been Sad með Christine and the Queens.