Það er Þriðjudagur. Ég klára dagvinnuna á hádegi. Takk Covid. Ég ákveð að taka það sem eftir lifir dagsins niður í 101 Reykjavík.

Ég byrja á Prikinu, mekka menningarinnar í 101 Reykjavík.  Það er alltaf eins og að koma á hverfispöbbinn sinn þegar maður labbar inná Prikið. Jafnvel þó ég búi í Grafarvogi og Gullöldin góða stóð alltaf fyrir sínu á meðan hún var opin.

Ég opna hurðina og Geoffery, einn af eigendum Priksins, heilsar vinalega. Ung stelpa sem er að vinna bakvið barinn tekur vel á móti mér og það er frekar tómlegt þó klukkan sé næstum hádegi. Ég panta mér uppáhalds vegan borgarann minn af matseðlinum og einn góðan latte, ég opna tölvuna og fylgist með fólkinu bæði fyrir innan og fyrir utan.

Einn annar viðskiptavinur, vel flúraður og skeggjaður strákur með LA Lakers derhúfum, situr með tölvu og hefur greinilega setið þarna um tíma. Hann er með tölvuna opna og ég hugsa með mér hvað hann sé að gera. Ég myndi skjóta að hann sé að semja tónlist. Hann fer reglulega út í sígó og hefur ekki áhyggjur frekar en aðrir af tölvunni sinni. Ég ryfja upp með mér þegar ég gleymdi tölvunni minni á Prikinu eitt árið þegar Airwaves stóð sem hæst, í gluggakistinni á neðri hæðinni. Þar lá hún ennþá seinna um kvöldið þegar ég uppgötvaði að ég hefði gleymt henni.

Fljótlega byrjar að bætast í gestina á Prikinu. Þrjár dömur úr einu ráðuneytinu koma og setjast í básinn við hliðin á mér. Ég þekki eina þeirra og mæli með A$AP Rocky, vegan borgaranum. Ég vona að þær verði sáttar. Annar ungur drengur kemur og sest við barinn með svart kaffi í glasi. Mér finnst eins og ég hafi séð hann bakvið barinn í gegnum tíðina. Það er góður gæðarstimpill þegar starfsmennirnir koma í vinnuna til að hanga án þess að vera á vakt.

Ráðuneytisstelpurnar klára matinn og inn kemur vinsælasta duo hip hop hljómsveit landsins ásamt umboðsmanni að hitta annan mann og þeir taka básinn við hliðin á og eru að tala bransamál. Ég ákveð að hækka í Hipsumhaps í headphonunum því nú er ég að upplifa mig sem njósnarkvendi. Það er frekar óþægilegt. Vegna 2 metra reglunar er svæðið á neðri hæðinni orðið fullt og gestir halda áfram að fara upp..

Ég klára borgarann og skola restinni af kaffinu niður og hugsa með mér hvert skuli halda. Á sama tíma labbar Alvia Islandia, einn af okkar betri röppurum, inn. Það er greinilegt hvert allt hipp og kúl fólkið okkar Íslendinga fer á þriðjudögum eftir hádegi.

Ég ákveð að labba upp Laugarvegin og sé strax Pop up markað með Íslenskri hönnun og öðrum girnilegum munum á horni Laugavegs og Skólavörðustígs. Það er ekki sála inni og afgreiðslukonan hrekkur við þegar ég brussast í gegnum hurðina. Verðið virðist vera nokkuð sanngjarnt. Kannski afleiða fækkun túrista með þykk veski. Ég rek hausinn inn í markað á vegum Bestseller og inní Rauða Kross búðina. Mig hefur alltaf langað til að vera týpan til að klæða sig í litrík föt úr slíkum búðum án þess að líta út eins og illa gerður jólasveinn í maí. Ég fer þó varla að byrja á því núna.

Þegar ég held leið minni í átt að Dillon er flautað á mig og mamma vinar míns kallar á mig að koma á rúntinn. Ég hendi mér inní bílinn og við spjöllum saman á meðan við keyrum niður á Granda, með stuttu stoppi þó á Joe and the Juice þar sem einn Capachino og Latte fengu far með okkur. Við skoðum þessar fáu manneskjur sem eru á ferð og höldum áfram spjalli. Eftir ágætis bíltúr skutlar hún mér aftur í bílinn og ég ákveð að færa bílinn niður í Garðastræti, þar er klukkutíminn kostar aðeins  190 kr/klst í staðinn fyrir 370 kr/klst. Ég ryfja upp afar slæma færni mína í að leggja lárétt en næ því án slysa á fólki eða öðrum bílum.

Ég sé hinum megin við götuna glytta í verslun Hjálpræðishersins og ákveð að líta við. Það er alltaf skemmtilegar týpur sem eru þar á ferð og þegar maður labbar inn finnur maður vægan kunnulegan ilm. Einhver viðskiptavinurinn hefur eflaust verið að fá sér smá drykk í morgunsárið eða ekki náð í sturtu síðan í gær. Á forlátum geislaspilara í búðinni er annar leikþáttur af Kardimmomubænum í gangi og rödd Jónasar Jónssonar fyllir báðar hæðarnar.

Ég kveð starfsfólk og legg leið mína niður í Gróf þar sem ég ætla loksins að ná mér í eintak af bókinni Kokkáll eftir Dóra DNA. Tveir menn um sextugt labba framhjá og eru súkkulaðibrúnir á litinn. Svona eins og Tenerife karlar frá fyrri árum. Ég hugsa hvernig í ósköpunum þeir urðu svona á litinn í þessu blessaða ferðabanni sem stendur yfir. En þeir fara sína leið og kannski á næstu sólbaðsstofu. Hver veit.

Ef þið viljið gott tips í 101 Reykjavík og eruð á flandri, þá er það að fá ykkur bókasafnskort og fá þar með aðgang að salernisaðstöðunni í Gróf. Ég næ sambandi við starfsmann á safninu og hann segir mér að eina eintakið inni af Kokkáli sé til lestrar á safninu sjálfu en ekki til útláns. Svekkelsi.

Ég fer því á aðra hæðina og finn mér nokkra krimma sem ég held ég hafi ekki lesið. Hvað með sjálfshjálpardeildina? Ætli ég finni eitthvað þar, ég meina, ekki veitir af. Skima yfir deild tileinkaða matreiðslubókum og rek augun í bók þar sem lofað er 6 kílóa missi á 5 dögum. Ég horfi niður á aukakílóin og ákveð að leita frekar betur að sjálfshjálpadeildinni. Sem ég finn ekki og læt því krimmana duga.

Ég ákveð að labba í gegnum Lækjartorg og spái í að fá mér sæti jafnvel á Ingólfstorgi með kollegum mínum, 101 rottunum, en sé að flestir eru með bjórdós og mér finnst ég ekki passa inní stemninguna. Ég legg leið mína í átt að Gyllta Kettinum og sé Emmsé Gauta labba hinum megin við götuna klæddan í tígrismunstraðan jakka. Það er enginn nógu kúl nema hann og kannski Joe Exotic til að púlla þetta look.

Ég kíki innum glugga lundabúða, sem selja rykfallna mynjagripi, en það er fátt um fína drætti. Verslanir eru annað hvort tómar eða hreinlega lokaðar. Ég ryfja upp Tiktok sem ég sá um daginn þar sem var útbúin svakalega flott flík úr klór og ódýrri peysu úr H&M. Ég ákveð því að leggja leið mína þangað, auðvitað búin að steingleyma að ég skarta fjólubláu hári í stað ljósu vegna annarar tilraunar sem ég sá á Tiktok í samkomubanninu.

Það er heitt og rakt þar inni eins og í flestum H&M búðum þannig að ég fer rakleitt upp í karladeildina og kaupi stæstu peysu sem ég finn og dríf mig að borga. Minni sjálfa mig á að koma aldrei aftur hér inn nema á þriðja bjór.

Þegar ég labba í áttina að Kolaportinu eftir H&M ósköpin sé ég nýkrýndan ristjóra DV, Tobbu Marínós, labba í gegnum nýja miðbæinn. Djöfull er hún smart hugsa ég með mér og þurrka svitan af enninu eftir að hafa farið í 10 mínútur í H&M. Ég labba inn Hafnastrætið og sé að verið er að gera við á Pablo Discobar. Ég hugsa til mannsins sem kveikti þar í og stal steypubíl á innan við viku. Vonandi er hann ok.

Það er lítið um fólk á stöðum þarna í kring. Ég sé ekki neinn inná Fjallkonunni eða Sæta Svíninu en mögulega lifnar þar við líf þegar nær dregur að kvöldmat. Ég vona það.

Ég labba upp Fishersundið í átt að Garðastræti og rifja upp hvað ég þurfi úr Krónunni fyrir kvöldmat og er pínulítið fegin að vera á heimleið. Því jafnvel þó 101 Reykjavík er dásamleg þá er Grafarvogurinn kannski bara lífið sem mig langar í.