Sjónvarpsstöðin Showtime tilkynnti það í gær að von væri á tíu þátta seríu um raðmorðingjann Dexter, en serían var fyrst sýnd árið 2006 og lauk göngu sinni sjö árum síðar. Nú geta aðdáendur tekið gleði sína á ný því Dexter snýr úr dvala næsta haust.

Leikarinn Michael C. Hall snýr aftur í hlutverk sitt sem raðmorðinginn Dexter, sem drepur ekki sér til gamans heldur til að losa heiminn við óþjóðalýð. Upprunalegi framleiðandi þáttanna, Clyde Phillips, er einnig með puttana í þessari endurkomu Dexter.

Tökur á þáttunum hefjast snemma á næsta ári en ekki er búið að ákveða nákvæma frumsýningardagsetningu. Ekki er búið að gefa upp hverjir aðrir leika í seríunni eða hver söguþráður hennar verður.

Þeir sem fylgdust með Dexter muna kannski eftir að síðasta serían árið 2013 endaði á því að Dexter tók lík systur sinnar á bátinn sinn, Slice of Life, og sigldi inn í stormaveður á meðan kærasta hans, Hannah McKay (einnig raðmorðingi) fór um borð í flugvél með son Dexters, Harrison. Bátur Dexters gjöreyðilagðist og því héldu áhorfendur að hetja þáttanna hefði látist. Rétt áður en þættinum lauk sáu áhorfendur hins vegar Dexter í hlutverki skógarhöggsmanns á óþekktum stað. Því verður spennandi að sjá hver örlög Dexters verða í þessari nýju seríu.

Þess má geta að íslenski leikarinn Darri Ingólfsson lék veigamikið hlutverk í lokaseríu Dexters árið 2013. Ólíklegt er að hann snúi aftur í þessari nýju seríu þar sem Dexter drap hann í fyrrnefndum lokaþætti.