Ónafngreindur byggingarverkamaður í Massachusetts í Bandaríkjunum hefur að sögn lækna dáið vegna mikillar vanabundinnar lakkrísneyslu sinnar. Maðurinn, sem var 54 ára gamall, át rétt um einn og og hálfan poka af svörtum lakkrís á hverjum degi.

Maðurinn var með öllu einkennalaus áður en hann fór skyndilega í hjartastopp á skyndibitastað. Bráðatæknum tókst að lífga hann við tímabundið, en hann dó svo daginn eftir. Segja læknar að um hafi verið að kenna glýsyrrisínsýrunni sem fyrirfinnst í lakkrís, en hún getur valdið háþrýstingi, blóðkalíumlækkun, blóðlýtingu, banvænum hjartsláttartruflunum og nýrnabilun. Allt þetta mátti finna hjá manninum.

Maðurinn hafði nýverið skipt um lakkrístegundir, frá rauða lakkrísnum sem hann var vanur að borða yfir í aðra tegund sem gerð var með svörtum lakkrís.

Ekki þarf meira en 50g af lakkrís á dag í tvær vikur til að valda hjartsláttartruflunum, sérstaklega fyrir fólk sem komið er yfir 40 ára aldurinn. Þetta segir matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna (FDA). Stofnunin heimilar allt að 3,1% innihald glýsyrrisínsýru í matvælum, en margar tegundir af sælgæti og ýmsar aðrar lakkrísafurðir gefa ekki upp hve mikið af sýrunni er að finna í vörum þeirra.

Læknar hafa tilkynnt málið til FDA í von um að vekja athygli á vandamálinu.