Sú frétt að Tom Cruise væri í viðræðum við Elon Musk, aðaleiganda SpaceX, vakti mikla athygli í byrjun maí. Ekki leið á löngu uns staðfest var að NASA væri líka aðili að viðræðunum og að þær snerust um áhuga Toms á að kvikmynda nýja, ónefnda mynd úti í geimnum, eða a.m.k. hluta hennar. Hefur kvikmyndaáhugafólk síðan beðið spennt eftir nánari fregnum af málinu.

Nýjasta nýtt er að það verður leikstjórinn og handritshöfundurinn Doug Liman sem leikstýrir myndinni, en leiðir hans og Toms Cruise lágu fyrst saman í myndinni Edge of Tomorrow (2014) og síðan í American Made (2017). Um leið er sagt að sagan sé eftir Tom Cruise og að Doug muni skrifa handritið. Ef það er rétt þá er verður þetta önnur myndin sem gerð er eftir sögu eða söguhugmynd Toms Cruise, en hann var einnig höfundur sögunnar í Days of Thunder sem var frumsýnd 1990.

Það sérstaka er að allt frá því að American Made var frumsýnd fyrir þremur árum hefur mynd sem nefnist Luna Park verið á verkefnalista þeirra Dougs og Toms, en sagan í henni er eftir Mark Bowden og gerist að mestu leyti á tunglinu. Það er því eðlilegt að menn hafi byrjað að spyrja hvort „nýja“ myndin væri í raun Luna Park. Ekkert svar hefur borist við því en benda má á að Luna Park á framleiðsludagskrá Paramount-kvikmyndaversins á meðan sú nýja er sögð án tengingar við kvikmyndaver, a.m.k. enn sem komið er.

Þetta er því allt frekar óljóst, en ef nýja myndin er ekki Luna Park þá eru þeir Tom og Doug með þrjár myndir í bígerð nú um stundir því á sameiginlegri dagskrá þeirra er einnig myndin Live Die Repeat and Repeat sem er framhald af Edge of Tomorrow. Sú mynd er sögð nokkuð langt komin í vinnslu, en þó hefur ekki verið gefið upp hvenær tökur hefjast.

Og eins og þetta séu ekki næg verkefni til að hafa á borðinu þá er Doug einnig með í bígerð myndina The Cannonball Run sem sækir persónur sínar og efnishugmynd í samnefndar Cannonball Run-myndir sem slógu í gegn árin 1981 og 1984. Tom er hins vegar með tvær Mission Impossible-myndir í gangi, sem teknar eru upp samhliða, en vinnslu þeirra var frestað vegna kórónaveirunnar og er sögð fara á ný í gang fljótlega.

En á meðan kvikmyndaheimurinn bíður spenntur eftir að sjá hvað setur með allar þessar framtíðarmyndir má segja að eitt sé nánast öruggt: Nýjasta Tom Cruise-myndin, Top Gun: Maverick, verður frumsýnd á annan dag jóla. Hér er nýjasta stiklan úr henni.