Mótmæli í Oklahoma
Frá mótmælunum í Oklahoma. Mynd: Paul Becker / Wikimedia.

Mótmæli gegn smitvarnarlögum sem flest ríki Bandaríkjanna hafa sett, rétt eins og ríkisstjórnir landa víða um heim, hafa að undanförnu leitt til fjölda árekstra og átaka á milli bandarískra borgara.

Í öðrum hópnum eru þeir sem vilja að þessum lögum sé fylgt (og verða að fylgja þeim atvinnu sinnar vegna) og í hinum eru þeir sem vilja hundsa þau á þeim forsendum að þau valdi meiri skaða en Covid-19-sjúkdómurinn sjálfur. Hafa orð Donalds Trump um að „lausnin megi ekki verða verri en vandamálið“ víða verið notuð sem nokkur konar slagorð þess hóps.

Fjöldamótmæli víða

Eins og mikið hefur verið fjallað um í fréttum að undanförnum hefur einnig komið til nokkuð háværra fjöldamótmæla við þing- og ráðhús sumra ríkjanna eins og í Ohio, Michigan, Illinois, Indiana, Minnesota, Alabama, Flórída, Oklahoma og fleiri ríkjum. Hafa mótmælendur m.a. gengið svo langt að mæta með alvæpni í mótmælin og jafnvel ýmsan táknrænan dauðabúnað eins og t.d. hengingasnörur.

Munað hefur litlu í sumum þessara mótmæla að upp úr syði en sem betur fer hefur ekki, a.m.k. ekki enn, komið til alvarlegra fjöldaátaka. Þótti það þó hella olíu á bálið þegar Donald Trump gaf í skyn í nokkrum tístum í lok apríl að hann styddi þessi mótmæli og hvatti til að ríkin yrðu „frelsuð“. Hafa sumir túlkað þess orð hans mjög alvarlega, jafnvel þannig að hann sé með þeim óbeint að hvetja til vopnaðra átaka.

Öryggisvörður myrtur vegna reglna um andlitgrímu

Síðastliðinn föstudag var öryggisvörður í verslun í bænum Flint í Michigan skotinn til bana eftir að hann vísaði konu út úr verslunni sem hafði neitað að setja upp andlitsgrímu. Var hann þar að fylgja eftir reglunum sem í versluninni giltu. Um 20 mínútum síðar mætti eiginmaður konunnar ásamt vini sínum í versluna og eftir hörð orðaskipti við öryggisvörðinn skipti engum togum að vinurinn dró upp byssu og skaut hann til bana.

Árásin á McDonald’s

Í gærmorgun gerðist svo svipað atvik á McDonald’s-veitingastað í Oklahoma-borg. Tveir menn neituðu að fara eftir smitreglum staðarins og var þeim í kjölfarið neitað um afgreiðslu og vísað út. Til ryskinga kom og drógu mennirnir þá upp byssur og skutu tvo starfsmenn, annan í fótinn og hinn í öxlina, áður en þeir hlupu út. Þeir voru handsamaðir skömmu síðar og eiga yfir höfði sér þunga dóma, rétt eins þeir tveir í fyrra dæminu. Starfsmennirnir sem særðust munu að sögn lækna ná sér að fullu.

Óhætt er að segja að mörgum sé mjög brugðið vegna þessarar þróunar og óttast að þetta sé bara byrjunin á öldu átaka á milli hópanna sem um þessi mál deila og gætu átt eftir að kosta mörg mannslíf til viðbótar þeim sem sjúkdómurinn sjálfur hefur kostað.

Forsíðumynd: Roman LopezUnsplash