Samkvæmt fréttastofu ABC-stöðvarinnar í Bandaríkjunum hafa landbúnaðarembætti í fimmtán mismunandi fylkjum gefið út viðvaranir til íbúa þess efnis að ekki skuli planta þessum fræjum, þar sem alls er óvitað hvaða plöntur þau hafi að geyma.

Pakkningarnar eru yfirleitt svipaðar — þunnir gráir pokar merktir Suzhou, sem er kínversk borg vestan við Shanghai. Innihaldslýsingin kveður gjarnan á um að pokinn innihaldi skartgripi, en við opnun koma svo í ljós glærir plastpokar fullir af fræjum.

Stendur nú yfir rannsókn á þessu stórfurðulega máli hjá bæði heimavarnardeild og landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna. Síðastliðinn sunnudag höfðu íbúar í St. Paul, Nashville, Fíladelfíu, Cincinnati, Tampa og Minneapolis allir fengið samskonar pakka, ásamt einstaklingum í fylkjunum Louisiana, Utah, Virginíu og Washington. Sumir pakkanna eru með utanáskrift sendanda frá Kirgisistan og innihalda leiðbeiningar á ensku um það hvernig planta skuli fræjunum. 

Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna telur líklegast að hér sé á ferð svokallað “brushing” svindl, sem felur í sér að seljendur vöru sendi fólki pakka óumbeðið í þeim tilgangi að geta birt falskar notendaumsagnir og aukið þannig sölu. Rannsóknin miðast á þessu stigi helst við að úrskurða hvort þessir pakkar innihaldi eitthvað sem gæti verið skaðlegt umhverfinu eða komið niður á landbúnaði.

Wang Wenbin, talsmaður utanríkisráðuneytis Kína, staðfesti síðastliðinn þriðjudag að miðarnir utan á pökkunum væru falsaðir, og útskýrði í kjölfarið að Alþjóðapóstsambandið (UPU) legði blátt bann við því að senda fræ í gegnum póst. Bætti hann við að kínverski pósturinn hefði samið við þann bandaríska um að fá pakkana senda til Kína til frekari rannsóknar.

Landbúnaðarráðuneyti Bandaríkjanna hefur gefið út yfirlýsingu þar sem fólk er hvatt til að hafa samband við fylkisyfirvöld eins fljótt og auðið er ef þeim berst slíkur pakki í pósti.