Skáldsagan Dune eftir höfundinn Frank Herbert hefur löngum reynst kvikmyndagerðarmönnum snúin að fanga. Fyrstur manna reyndi meistari David Lynch árið 1984, en lenti hann því miður í skelfilega miklum listrænum ágreiningi við stúdíómaskínuna og endaði svo að hann var nógu ósáttur með lokaútgáfu myndarinnar til að afneita henni gjörsamlega. Við fyrstu útgáfu myndarinnar var því titlaður leikstjóri hennar Alan nokkur Smithee, en það er dulnefni sem Hollywood-leikstjórar taka sér samkvæmt hefðinni í mótmælaskyni þegar þeir vilja ekki setja eigið nafn á lokaverkið.

Næsta tilraun kom árið 2000 frá leikstjóranum John Harrison, en þar var um að ræða þriggja hluta framhaldsmynd gerða fyrir sjónvarp. Hér þótti mörgum hafa tekist mun betur til við að tjá söguheim bókarinnar, en einnig var því gjarnan fleygt fram að Harrison hefði farið of djúpt í að gera bókinni skil og þannig misfarist að vinna úr kvikmyndamöguleikunum, með þeim afleiðingum að oft komu langdregnir kaflar sem hefðu sómað sér betur í bók heldur en á skjánum.

Nú er árið 2020, og hefur verkið lent í höndunum á einum virtasta vísindaskáldskaparleikstjóra samtímans, Denis Villeneuve. Meðal annars hefur hann einna helst getið sér það til frægðar að skapa stórkostlega gott framhald af einni sígildustu vísindaskáldskaparmynd allra tíma, Blade Runner, sem kom út árið 1982 í leikstjórn Ridley Scott. Heitir framhaldið einfaldlega Blade Runner: 2049, og má með sanni segja að þar sé á ferð ein besta mynd sem komið hefur út í geiranum um árabil, og fyllilega í samræmi við andrúmsloft og gæði fyrri myndarinnar (eitthvað sem flestum þótti alls ógerlegt fyrir útgáfu myndarinnar).

Því hefur myndast mikil eftirvænting síðan tilkynnt var að Villeneuve myndi reyna við þessa erfiðu skáldsögu. Nær hún hér hámarki með þessari stiklu, og eru bíóunnendur víðsvegar um heim vægast sagt logandi af spennu fyrir áframhaldinu.

Sjáið stikluna hér: