Denis_Villeneuve_Cannes_2018
Denis Villeneuve, leikstjóri myndarinnar.

Það bíða margir spenntir eftir Dune, næstu mynd, eða öllu heldur næstu myndum kanadíska leikstjórans Denis Villeneuve, því þetta verða tvær myndir þar sem hvor mynd um sig inniheldur helming sögunnar.

Dune er byggð á samnefndri vísindaskáldsögu Franks Herbert sem kom út árið 1965 og er einhver mest selda vísindaskáldsaga allra tíma (rúmlega 20 milljón eintaka seld) og að margra mati sú besta, eða a.m.k. á pari við þær bestu. Frank fylgdi svo bókinni eftir með fimm framhaldssögum og kom sú fyrsta út 1969 og sú síðasta 1985, ári áður en hann lést, 65 ára að aldri.

Eftir lát Franks tók sonur hans, Brian Herbert, við útgáfuréttinum og hafa hann og bandaríski rithöfundurinn Kevin J. Anderson allt frá 1999 skrifað og gefið út bæði forsögur, framhaldssögur og nýjar, sjálfstæðar sögur úr Dune-sagnaheiminum. Auk þess hefur sagan getið af sér teiknimyndasögur, smásögur, tölvuleiki, borðspil og fleira.

Um hvað er sagan?

Dune gerist í fjarlægri framtíð þegar fólk hefur sest að á hinum ýmsu plánetum í alheiminum. Yfir hverri þeirra ríkja hertogar og fjölskyldur þeirra samkvæmt tilskipun frá keisaranum Shaddam IV sem er æðstur allra „Padishah“-leiðtoga hins „gamla keisaraveldis“.

Lykill, eða grundvöllur alls er efni, „melange“, sem er oftast kallað „kryddið“. Það lengir líf manna, eykur styrk þeirra og líkamlega getu verulega og margfaldar bæði næmi allra skynfæra og virkni heilans.

Það sem meira er, er að með stöðugum og stærri skömmtum af kryddinu getur sumt fólk orðið að nokkurs konar mannlegum ofurtölvum sem reikna út á ljóshraða ferðaleiðir í gegnum tíma og rúm og gera fólki kleyft að ferðast um geiminn og á milli pláneta á skjótan hátt.

Án kryddsins myndi öllum grundvelli vera kippt undan keisaraveldinu gamla enda myndi þá hver pláneta fyrir sig einangrast á ný. Kryddið er því um leið það mikilvægasta sem til er í alheiminum og það verðmætasta … og það hefur alltaf verið ljóst að ef einhverjum einum tækist að verða einráður yfir því yrði hann um leið einráður í alheiminum.

En kryddinu fylgja vandamál

Vandamálin sem fylgja notkun kryddsins eru nokkur og ekki beint léttvæg. Í fyrsta lagi geta þeir sem ánetjast því ekki hætt aftur því fráhvarfsáhrifin eru banvæn í langflestum tilfellum.

Í öðru lagi er kryddið eingöngu að finna á eyðimerkurplánetunni Arrakis sem flestir þekkja þó betur undir nafninu Dune.

Í þriðja lagi er kryddsins á Arrakis/Dune gætt bæði beint og óbeint af risastórum „sandormum“ sem ráðast gegn hverjum þeim sem reynir að nálgast það.

Í upphafi sögunnar kynnumst við hertoganum Leto Atreides sem ríkir ásamt fjölskyldu sinni yfir plánetunni Caladan. Dag einn berst honum tilskipun frá Shaddam IV um að fara til Dune og sjá til þess að næsta uppskera af kryddinu skili sér í hús, eða þannig skulum við orða það hér. Leto grunar strax að í raun sé þetta gildra því Shaddam IV líti á hann og hans fólk sem sína helstu andstæðinga í undirliggjandi baráttu um alheimsvöldin. Sá grunur á eftir að reynast réttur.

Leto getur samt ekki skorast undan tilskipuninni og heldur af stað til Dune ásamt föruneyti sínu, þ. á m. syninum Paul sem á seinna eftir að verða aðalpersóna sögunnar. Þar með hefst ævintýrið fyrir alvöru og til að skemma nú örugglega ekki neitt fyrir þeim sem þekkja það ekki förum við ekki nánar út í viðburðaríkan söguþráðinn hér.

Kvikmyndun sögunnar

Allt frá því bókin kom út 1965 var byrjað að ræða um kvikmyndun hennar. Tilraun var gerð til þess árið 1971 undir stjórn Alejandros Jodorowsky en hún rann út í sandinn. Til að gera langa sögu stutta gekk svo hvorki né rak með þær fyrirætlanir um tíu ára skeið eða allt þar til að því kom árið 1981 að leikstjórinn David Lynch réðst í verkið að frumkvæði Dinos De Laurentiis. Var samnefnd mynd hans svo frumsýnd í desember 1984.

Myndin, sem kostaði 40 milljón dollara (um 102 milljónir dollara í dag), fékk blendnar viðtökur gagnrýnenda, allt frá mjög slæmum upp í nokkuð góðar, en hvergi meira en það. Einn af þeim sem tætti hana í sig var Roger Ebert sem sagðist hafa misst áhugann á henni eftir níu mínútur, sagði hana m.a. algjört „mess“ og bæði óviðsættanlega ljóta og tilgangslausa.

Myndin fékk einnig blendnar viðtökur áhorfenda en á meðal þeirra voru þó margir sem sögðu hana frábæra og sumir kölluðu hana – og kalla hana reyndar enn – meistaraverk. Leikur enginn vafi á að myndin fékk mun betri viðtökur hjá þeim sem höfðu lesið söguna en þeim sem höfðu ekki gert það. Fyrir mörgum þeirra síðarnefndu var sagan í myndinni nánast óskiljanleg og botnlaus en þeir fyrrnefndu tengdu betur við atriðin.

Hér er stiklan úr myndinni:

Floppaði í kvikmyndahúsum

Dune gekk hörmulega illa í kvikmyndahúsum og á henni varð mikið fjárhagslegt tap. Tæplega er samt hægt að kenna David Lynch um það, alla vega ekki honum einum.

Málið er að upphafleg útgáfa hans af myndinni var meira en fjórar klukkustundir að lengd. Því höfðu aðalframleiðendurnir Dino og Raffaella De Laurentiis ekki reiknað með og töldu alveg ómögulegt að hafa hana lengri en 120 mínútur. David fékkst hins vegar ekki til að stytta hana og því ákváðu þau að setjast sjálf yfir klippinguna.

Þegar upp var staðið höfðu þau ekki bara stytt útgáfu Davids um meira en tvær klukkustundir heldur höfðu þau bætt inn söguskýringum, þ. á m. upphafsútskýringum Virginiu Madsen sem sjá má í stiklunni hér fyrir ofan, og tekið upp nýjar setningar (útskýringar) sem þau lögðu persónum myndarinnar til og voru stundum í engu samræmi við leikrænu tilþrifin.

Þetta gerðu þau auðvitað til að reyna að gera söguþráðinn skiljanlegri enda hlýtur hann að fara að láta á sjá þegar helmingurinn af honum er klipptur út.

David Lynch, sem gerði Elephant Man áður en hann samþykkti að gera Dune, hefur kallað myndina stærstu sorg lífs síns. Hann hafi ekki haft nein umráð yfir endanlegri útgáfu hennar og að hún væri alls ekki myndin sem hann gerði. Í nýlegu viðtali sagðist hann einnig hafa núll-áhuga á að sjá nýju myndina þar sem minningin ein nísti hjarta hans.

Ekki aftur sömu mistökin

Það er m.a. vegna þessa sem Denis Villeneuve setti það sem skilyrði fyrir því að hann tæki að sér gerð nýju myndarinnar að henni yrði skipt í tvennt, fyrri- og seinni hluta. Önnur augljós ástæða er auðvitað að það er bara hreinlega ekki hægt að segja alla söguna á tveimur tímum, ekkert frekar en það hefði verið hægt fyrir Peter Jackson að troða allri Lord of the Rings-sögunni í staka, tveggja tíma mynd.

Denis, sem gerði m.a. Prisoners, Sicario, Arrival og Blade Runner 2049, hefur lagt áherslu á það í viðtölum á að nýja myndin sé ekki á neinn hátt endurgerð á mynd Davids Lynch heldur frumgerð sem byggist á hans eigin túlkun á sögunni og glænýju handriti, en það skrifaði Denis í samvinnu við Jon Spaihts (Prometheus, Passengers, Dr. Strange) og Eric Roth (Forrest Gump, The Curious Case of Benjamin Button, A Star is Born).

Með aðalhlutverkið í nýju myndinni, hlutverk söguhetjunnar Pauls Atreides, fer Timothée Chalamet, en á meðal annarra leikara í viðamestu hlutverkunum eru Rebecca Ferguson, Oscar Isaac, Josh Brolin, Stellan Skarsgård, Dave Bautista, Zendaya, Charlotte Rampling, Jason Momoa, Sharon Duncan-Brewster og Javier Bardem.

Dune verður frumsýnd 18. desember en við vitum ekki hve lengi þarf að bíða eftir seinni hlutanum eftir að sá fyrri verður frumsýndur. Denis hefur sagt að þetta verði eins og með It-myndirnar tvær, sem bendir til að seinni hlutinn verði frumsýndur í desember 2021, en það hefur ekki, að því er við vitum best þegar þetta er skrifað, verið staðfest. Eitthvað segir þeim sem þetta skrifar að það verði styttra á milli myndanna en heilt ár.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar stillur úr nýju myndinni, en fyrsta stiklan er ókomin og verður sennilega ekki frumsýnd fyrr en í haust. Vonandi setur kórónaveiran ekki strik í reikninginn.

Dune
Denis Villeneuve, leikstjóri, ásamt Javier Bardem sem leikur Stilgar.
Dune
Timothée Chalamet og Rebecca Ferguson sem þau Paul Atreides og Lady Jessica.
Dune
Zendaya leikur Chani sem tilheyrir Fremen-fólkinu á Dune.
Dune
Jason Brolin leikur Gurney Halleck, einn helsta þjálfara Pauls.
Dune
Jason Momoa leikur Duncan Idaho, annan þjálfara Pauls.
Dune
Oscar Isaac leikur hertogann Leto Atreides, föður Pauls.