Vísindahúmortímaritið Annals of Improbable Research veitti í gær sín árlegu Ig Nobel-verðlaun. Þau eru jafnan veitt í tíu mismunandi flokkum og er markmiðið að benda á skondnustu eða óvenjulegustu rannsóknirnar í vísindaheiminum það árið. Má segja að þetta sé nokkurs konar góðlátleg skopstæling á Nóbelsverðlaununum, og vekur þetta jafnan mikla kátínu innan vísindasamfélagsins og víðar.

Verðlaunaathöfnin að þessu sinni fór fram á netinu sökum Covid-19 ástandsins, en þrátt fyrir það var haldið í margar hefðir hennar, eins og til dæmis þátttöku raunverulegra Nóbelsverðlaunahafa. Til að  mynda voru ein verðlaunin kynnt af rannsóknarmanninum Andre Geim, sem vann til Nóbelsverðlaunanna í eðlisfræði árið 2010. (Þess má geta að hann nældi sér einnig í Ig Nobel-verðlaun árið 2000, fyrir að láta frosk fljóta í lausu lofti með aðstoð segulmagns.)

Vinningshafar fengu þetta árið peningaverðlaun — 10 trilljón dollara seðil frá Zimbabwe.

Hér er listinn af verðlaunahöfum þessa árs eins og hann leggur sig:

Hljóðelisfræði: Stephan Reber, Takeshi Nishimura, Judith Janisch, Mark Robertson og Tecumseh Fitch, fyrir að láta kínverskan kvenkyns krókódíl urra í loftþéttu rými fullu af helíumi.

Sálfræði: Miranda Giacomin og Nicholas Rule, fyrir að uppgötva aðferð til að greina sjálfsdýrkendur (narcissista) út frá augabrúnum þeirra.

Friðarverðlaun: Ríkisstjórnir kjarnorkuríkjanna Indlands og Pakistan, fyrir að láta diplómata sína hringja dyrabjöllum hvors annars um miðja nótt og hlaupa svo í burtu.

Eðlisfræði: Ivan Maksymov og Andriy Pototsky, fyrir að ákvarða í gegnum tilraunir hvernig lögun ánamaðks breytist þegar hann er látinn víbra á hárri tíðni.

Hagfræði: Christopher Watkins og kollegar hans, fyrir að reyna að magngreina sambandið milli misskiptingar auðs og meðaltali franskra kossa á milli mismunandi landa.

Stjórnun: Xi Guang-An, Mo Tian-Xiang, Yang Kang-Sheng, Yang Guang-Sheng og Ling Xian Si, fimm hikandi leigumorðingjar frá Guangxi í Kína, sem gerðu undirverktakasamninga fram og til baka við hvern annan varðandi tiltekið morð, með þeim málalokum að enginn þeirra framkvæmdi verkið og allir þeirra lentu í fangelsi.

Skordýrafræði: Richard Vetter, fyrir að afla sannana á því að margir skordýrafræðingar eru hræddir við kóngulær, sem eru jú ekki skordýr.

Læknisfræðileg menntun: Jair Bolsonaro forseti Brasilíu, Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands, Narendra Modi forsætisráðherra Indlands, Andrés Manuel López Obrador forseti Mexíkó, Alexander Lukashenko forseti Hvíta-Rússlands, Donald Trump Bandaríkjaforseti, Recep Tayyip Erdogan forseti Tyrklands, Vladimir Putin forseti Rússlands og Gurbanguly Berdimuhamedow forseti Túrkmenistan, fyrir að nota Covid-19 faraldurinn til að kenna heiminum að að stjórnmálamenn geta haft meiri áhrif á líf og dauða en vísindamenn og læknar.

Efnisfræði: Metin Eren, Michelle Bebber, James Norris, Alyssa Perrone, Ashley Rutkoski, Michael Wilson og Mary Ann Raghanti, fyrir að sýna fram á að hnífar gerðir úr frosnum mannasaur virki ekki sérstaklega vel.

Fyrir áhugsama má finna alla verðlaunahafa Ig Nobel-verðlaunanna frá byrjun hér.