Haustið fyrir mér er sá tími sem ég skipulegg skóla og tómstundir, skelli í skutla og sækja gírinn og negli niður einhverja rútínu svo allt gangi upp. Ég varð móðir nítján ára gömul og hef gengt þessu hlutverki öll mín fullorðins ár.

Eins og ég sagði frá í síðasta pistli þá fór drengurinn minn til pabba síns í skóla í vetur, en hann býr úti á landi. Þar fær hann ást og umhyggju, er frjáls í sveitinni og fær að tengjast betur sinni fjölskyldu. Við tókum þessa ákvörðun í sameiningu, ekkert drama og er ástæðan einfaldlega sú að honum langaði til að prófa að vera þar í vetur. Hinsvegar fékk ég svona tómleika tilfinningu alveg niður í maga þegar við vorum að ræða þetta og langaði bara alls ekki að hann færi, eins og ég fjallaði um í síðasta pistli. Mér leið eins og það væri verið að slíta úr mér hjartað þegar ég kvaddi hann á flugvellinum. Einhver tilfinninga sprengja sprakk innra með mér í öllu þessu ferli.

Sjá einnig:

„Þú átt heima hjá mömmu þinni og ert í skóla hér“

HLUTVERKIÐ SEM ÉG HEF LEIKIÐ ÖLL MÍN FULLORÐINS ÁR

Hann er í góðum höndum, ég meina hann er hjá pabba sínum, þó vissulega komi ekkert í stað mömmu. Þegar ég skoðaði allar þessar erfiðu tilfinningar sem komu upp á yfirborðið þá kom það mér svo á óvart hvaðan þær komu. Sorgin mín, óttinn, efinn, skömmin og tómleikinn kom frá allt öðrum stað en ég hélt. Ekki að það sé óeðlilegt að finnast erfitt að sjá á eftir ellefu ára gamla barninu sínu út á land í skóla. Auðvitað er það erfitt. Heldur varð mér ljóst að ég væri með þessu að kveðja stóran part af mér. Ég var að syrgja mitt aðalhlutverk, stíga niður af sviðinu, allavega tímabundið. Hlutverkið sem ég hef leikið öll mín fullorðins ár. Móðurhlutverkið tekur svo mikið pláss í hinu daglega lífi.

Þarna sá ég hvað sjálfsmyndin mín er bundin við þetta hlutverk, mitt aðal einkenni. Ekki að það sé neitt óeðlilegt við það og auðvitað er ég ekki hætt að vera mamma. En tilvera mín hefur alltaf verið bundin þessu daglega sem fylgir því að vera móðir. Eðlilega breytist móðurhlutverkið með tímanum eftir því sem börnin eldast, en hann er bara rétt að verða ellefu ára. Mér varð ljóst að nú væru kaflaskil.

ÉG VARÐ EIN TILFINNINGASÚPA

Þarna komu svo margar tilfinningar saman, ég varð að einni tilfinningasúpu. Í þessu ferli áttaði ég mig á því að sorgin, sem yfirtók mig, var svo sterk vegna þess að ég var að kveðja ákveðið tímabil. Mitt aðalhlutverk er að taka á sig nýja mynd. Tómleikinn vegna þess að ég veit ekki hvað á að taka allt þetta pláss sem móðurhlutverkið hefur tekið. Ég meina „hvað á ég að gera við allan þennan tíma“, ég þekki ekkert annað en að þurfa skipuleggja dag og kvöld út frá þessu stórkostlega hlutverki.

Partur af mér hugsaði, mamma veit best, þetta er bara þvæla, það kemur ekkert í stað mömmu. Sem er alveg rétt, það kemur ekkert í stað mömmu. Ég ímyndaði mér skiptin sem honum ætti eftir að líða illa, væri lítill í sér, þyrfti mömmu knús og ég ekki á staðnum. Ömurleg tilhugsun. Er það ekki mitt hlutverk að halda fast í hann, vernda hann og vera til staðar? Jú það er mitt hlutverk. En barnið er ekki farið frá mér. Heldur er það hlutverkið mitt sem er að breytast. Ég sá líka hugrekkið hans og unga drenginn sem er að læra að standa með sér. Er að velja fyrir sig. Getur verið að ég sé ekki alltaf það besta fyrir hann. Hann þarf líka að fá að reyna á sig. Á ég að láta minn ótta koma í veg fyrir að hann taki þessi skref. Við hvað er ég svona hrædd? Ég meina hann kemur bara aftur heim ef þetta gengur ekki upp. Þetta er ekki flókið.

ÓTTINN MINN VAR ÓTTI VIÐ ÞAÐ ÓÞEKKTA

Málið er að ég er ekkert öðruvísi en aðrir. Þarna þurfti ég að beita þeim verkfærum á mig sem ég nota í mínu starfi. Ég veit að við erum víruð til þess að vera hrædd við það óþekkta. Það sem við þekkjum ekki. Þegar við sjáum ekki fyrir okkur hvernig hlutirnir þróast eða enda, þá kemur upp ótti. Óttinn minn var ótti við það óþekkta. Ótti við hvert hlutverk mitt er ef ég er ekki í hlutverki mömmunnar svona dags daglega. Sorgin mín var til komin vegna þess að ég var að kveðja þetta aðalhlutverk, svo stóran part af mér. Hlutverk sem ég hef sinnt svo lengi og sjálfsmynd mín er bundin við að svo miklu leiti. Og tómleikinn er til kominn vegna þess ég veit ekki hvað mun fylla þetta rými.

AUÐVITAÐ MÆTTI SEKTARKENNDIN LÍKA Á SVÆÐIÐ

Allar þessar tilfinningar kölluðu líka fram gamlar minningar. En fyrst mættu þær erfiðu, auðvitað. Minningar um þegar ég hef varið tímanum annars staðar en með börnunum mínum. Öll skiptin sem ég hef verið pirruð eða þreytt komu efst í hugann, ekki nennt að leika eða fíflast með þeim, eða sleppt því að lesa fyrir hann á kvöldin. Auðvitað mætti sektarkenndin líka á svæðið. Hver bauð henni? Málið er að þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum ákvörðunum þá eru það oft aðrir þættir sem lita ákvörðunina. Því við erum hönnuð til að verja okkur og vernda, en þessi varnar mekkanismi þjónar okkur ekkert alltaf vel. Ekki í þessu samfélagi sem við búum við í dag. Þetta er svona steinaldar mekkanismi sem á bara ekkert alltaf við. Þarna var hausinn á mér að reyna fá mig af þessari ákvörðun, reyna að vernda mig. Eins og hann væri að hvísla eða frekar öskra í eyrað á mér „þetta er rangt“ ekki láta hann fara til pabba síns“ „hvers konar mamma ert þú eiginlega“ og svo framvegis.

Þarna var óttinn við það óþekkta, sem er innbyggður og hannaður til að vernda okkur. Reyndar frekar til að koma í veg fyrir að við förum of langt út á sléttuna og ljón borði okkur eða svo við týnumst ekki, því það var ekkert Google Maps á steinöld. Að reyna að koma í veg fyrir eitthvað sem var óþægilegt fyrir mig, ófyrirsjáanlegt og langt út fyrir utan minn þægindaramma. Þarna mætti óttinn minn við það óþekkta, svo óforskammaður og ósvífinn, og beitti öllum brögðum til að fá mig af þessari ákvörðun. Hann henti í mig skömm, sektarkennd, vanmætti, ótta, sorg, tómleika og bara öllu sem hann gat. Meira að segja reyndi hann að sannfæra mig um að svona gera mömmur ekki. „Ætlar þú að vera svona mamma sem sinnir ekki barninu sínu“? Ég meina það, þvílíkur dóni sem þessi heili er, það er ekki eins og drengurinn sé eingetinn.