Ég hef uppgötvað ýmislegt í sjálfum mér, en það eru t.d. ótrúlega öfgakenndar tilfinningar sem tengjast höfnun.

Hér að neðan eru neikvæðu tilfinningasveiflurnar og hugarfar sem ég fæ þegar ég upplifi höfnun.

Ég er ekki nóg.
Ég þarf athygli og viðurkenningu frá fólki. En ákveðnu fólki. Og ef það viðurkennir mig ekki þá er ég ekki nóg.

Ekki nógu hvað samt?

Ekki nógu góður.
Ekki nógu sætur.
Ekki nógu gáfaður.
Bara ekki nóg til að vera talinn sem hluti af lífinu. Eða eiga gott skilið.

Það er eins og að ef ég er ekki bestur í einhverju þá sé ég verstur í því.
Ef ég er ekki sætastur þá er ég ljótastur.
Ef einhver elskar mig ekki þá hatar hann mig.

Og þá hata ég hann fyrir að hata mig.

Fólk þarf ekki einu sinni að segjast hata mig.
Ég bara veit það. Það hatar mig og finnst ég asnalegur og glataður.
Fólk svarar ekki skilaboðum eða pósti. Það hafnar mér og mínum draumum. Af hverju gerir það það?
Af hverju getur fólk ekki bara svarað svo ég viti að það viðurkenni mig sem mannveru með tilfinningar. Svo ég finni að því finnist ég vera góður, eða sætur?
Af hverju get ég ekki látið þessa manneskju svara mér?
Af hverju get ég ekki látið þessa manneskju elska mig?

Af hverju þarf hún að elska mig?

Af hverju ætti ákveðin manneskja eða manneskjur að fá þetta ákvörðunarvald yfir mínum eigin verðleika sem mannveru?

Þetta er gersamlega óskiljanlegt fyrir mér.

En ein ósvöruð skilaboð á Facebook í einn klukkutíma fara svona með mig. En það er ekki hver sem er sem hefur svona vald.
Það þarf að vera einhver sem ég er að reyna sanna mig fyrir á einhvern hátt. Sem elskhugi, sem athafnamaður, sem listamaður, sem starfsmaður. Einhver sem hefur það vald að geta veitt mér eitthvað sem ég vil en hundsar mig og veitir mér ekki þá athygli sem ég óska eftir.

Það skrítna við þetta er að ég verð líka smá móðgaður. Mér finnst ég eiga skilið athyglina og viðurkenninguna. Þannig að fyrst verð ég hissa, svo móðgaður, svo reiður og svo…loksins einfaldlega sár og fer í spíralinn að ofan.
En nú að leiðinni út frá þessum hugsunarspírali.

Ég get ekki leyft öðrum að hafa þetta vald á mínum tilfinningum. Mér finnst alveg ótrúlega erfitt að koma mér út úr þessum hugsunum. Það krefst þvílíkrar vinnu í sjálfstrausti og djúpri skoðun á af hverju ég bregst svona við. Hvað er það í minni fortíð og uppeldi sem veldur því að ef einhver hafnar mér að þá hreinlega klikkast ég af sorg, reiði og vonleysi?

Ég varð fyrir einelti. Mér var einu sinni sagt að ég væri ljótur af stelpu sem ég var hrifinn af. Ég var ekki nógu strákalegur. Ég var ekki jafn góður dansari og annar í dansskólanum. Ég var ekki nógu mikill hluti af stelpuhópnum til að fá að vera alltaf með þeim en átti ekki nógu mikið af strákavinum til að vera alltaf hluti af þeim hóp heldur. Ég var á milli hópanna. Ég upplifði kynferðisofbeldi þegar ég var 12 ára og 14 ára og mér fannst það bara meika sens í mörg ár án þess að fatta að það hafi verið rangt og ógeðslegt. Það segir eitthvað um sjálfsvirðinguna mína.

Þó ég telji mig hafa unnið mig í gegnum áföll fortíðarinnar þá eru greinilega leifar af áföllunum sem dvelja sem tilfinningar inn í egóinu mínu. Orð geta virkað sem eitur og haft langvarandi áhrif.

Ég er sterkari en ég var. Á hverjum degi þarf ég að gera mitt besta til að sinna sjálfum mér svo það séu minni líkur á að ég bregðist svona illa við höfnun.

Ég þarf samt virkilega á hverjum degi að halda áfram. Skrifa hvernig mér líður. Skrifa hvað mig langar að gera.
Sinna ástríðu minni og tilgangi.

Á hverjum degi.

Ef ég sinni áhugamálum mínum og ástríðum þá er ég að næra sálina mína. Ég er oftar í vellíðan og því meira sem ég dvel þar því meiri líkur á að ég sé og verði sterkari einstaklingur.

Þetta er ástæðan fyrir ÞÍN EIGIN LEIÐ. Ég vil ekki festast í klóm annarra og leyfa þeim að móta mína eigin sjálfsvirðingu. Ég hef ástríðu og tilgang. Hann er að vera innblástur, að kenna, að miðla, að læra, að berskjalda. Það geri ég með því að opna samtalið. Það geri ég með því að dansa og skemmta. Það geri ég með því að skrifa. Eins og núna.

En aðal pæling þessa pistils er: Af hverju gef ég einhverjum öðrum svona mikið vald yfir tilfinningum mínum? Hvernig get ég sjálfur eignast og borið meiri ábyrgð á eigin tilfinningum?
Það er vinnan og æfingin sem þarf að eiga sér stað á hverjum degi.

x
#þíneiginleið
Comments