Lífið er lotterí og líkt og slysin gera ekki boð á undan sér gera áföll það ekki heldur. Lífið deilir heldur ekki jafnt á milli fólks, sumir einstaklingar lenda í mörgum áföllum á lífsleiðinni á meðan aðrir sleppa betur. Ósanngjarnt? Ég veit það ekki. Áföll eins og skilnaður, ástvinamissir, slys, veikindi, ofbeldi, gjaldþrot, svik og annað slíkt er eitthvað sem flestir þurfa að mæta að einhverju leiti á lífsins göngu. Sumir í meira mæli en aðrir, en enginn sleppur.

Oft á tíðum hefur mér liðið eins og ég bara geti ekki meira. Ég þurfi sko ekki fleiri lexíur í lífinu, hljóti að koma að útskrift hjá mér í þessum kúrs. Löngu komin með mastersgráðu í erfiðri lífsreynslu og á hraðleið í doktorsgráðuna, en BINGÓ þá bætist annar áfangi við.

Þegar lífinu hefur verið snúið á rönguna í kjölfar áfalls tekur við ákveðið sorgarferli. Án þess að gera lítið úr slíku inngripi í lífið þá kemur að þeim tímapunkti að við þurfum að taka ábyrgð á andlegri heilsu okkar. Sú ábyrgð hefst annars vegar með því að viðurkenna að eitthvað fór ekki eins og við ætluðum okkur og hinsvegar með ákvörðun um að láta það ekki brjóta okkur niður fyrir lífstíð. Við höfum nefnilega val um að láta erfiða reynslu ekki marka okkur á neikvæðan hátt út ævina með því að snúa reynslunni upp í lærdóm. Öll erfið reynsla skilur eftir sig mark að einhverju leiti. En valið stendur á milli þess að láta hana ræna okkur gleði, bjartsýni og von eða að draga lærdóm af þeim atburði sem fyrir okkur er lagður.

Tökum skilnað sem dæmi. Enginn gengur upp kirkjugólfið hugsandi að helmings líkur séu á að ég muni skilja. Að mögulega muni einstaklingurinn sem stendur á móti þér við altarið svíkja þig eða brjóta trúnað. Nei auðvitað ekki, því almennt viljum við trúa að við séum undantekningin, það verður öðruvísi hjá mér. Þegar lífið tekur svo óvænta stefnu, hvort sem það er varðandi hjónaband eða annað, þá eðlilega verðum við fyrir áfalli. Hinsvegar marka þessi áföll sum okkar á neikvæðan hátt fyrir lífstíð, á meðan aðrir virðast halda ótrautt áfram. Við hættum þannig að vera undantekningin og teljum þetta óvænta inngrip vera álög. Hvernig getum við komist aftur á þann stað að okkur líði eins og undantekningin? Hver er galdurinn? Hvernig getur maður gengið niður kirkjugólfið í annað eða þriðja sinn?

Hér er ekki verið að gefa í skyn að erfið reynsla hafi ekki varanleg áhrif, alls ekki. Heldur getur óvænt u-beygja í lífinu falið í sér dýrmætan lærdóm sem hægt er að snúa upp í aukinn kraft, eins og ofurkraft. Líkt og ofurhetjurnar öðlast sína galdra eftir eitthvað hræðilegt atvik. Eins getur erfiða reynslan þín verið falinn lærdómur sem þú gerir að þínum ofurkrafti. Jafnvel, í einhverjum tilfellum, það besta sem gat komið fyrir þig.

Sjáðu til, þegar við stöndum í miðjunni á storminum langar okkur helst að hverfa ofan í jörðina og verða ósýnileg, en þá er tvennt í stöðunni. Brotna eða sjá falið tækifæri í hvaða lærdóm megi draga af þessari reynslu. Höldum okkur við hjónabandið. Skömmin sem fylgir skilnaði yfirbugar marga, tilfinningin um að hafa átt að sjá eitthvað fyrir eða gert eitthvað öðruvísi tekur yfir og óttinn við framtíðina verður yfirþyrmandi. Við upplifum okkur eins og ein stór mistök. Oft fer allur fókusinn á hvað hinn aðilinn sé mikill skíthæll eða trunta, sem pottþétt hefur það ótrúlega gott og er mega sáttur. Með þessu hugarfari dveljum við í fortíðinni og seljum okkur um leið að ekkert jákvætt geti af þessu leitt. Neitum allri ábyrgð á okkar eigin hamingju og stimplum rækilega inn í framheilann þessa möntru um hvað lífið sé ósanngjarnt. Lokum fyrir allt það dásamlega sem lífið hefur upp á að bjóða og verðum fórnarlamb í okkar eigin álögum. Förum á mis við þann lærdóm sem kenndur er í kúrsinum og líkurnar á að næsta hjónaband eða samband verði eins og síðast margfaldast.

Hver kannast ekki við að fá óþolandi lag á heilann? Lagið getur hljómað í hausnum á þér í langan tíma án þess að þú gerir þér grein fyrir því, en um leið og þú fattar það þá reynir þú að koma því út. Eins getur þú samið þitt lag, endurtekið sömu möntruna það oft að hún festist í hausnum á þér. Ef mantran þín er ótti, skömm, gremja eða reiði, þá er það alveg eins og að spila lélegt lag í hausnum á þér. Þú raular með og þar sem þú samdir lagið þá verður það lagið þitt. Sú mantra, ef endurtekin nægilega oft, er ekkert annað en höfnun á þeirri ábyrgð sem hver og einn einstaklingur ber á sínum tilfinningum. Þannig getur þú gefið skömm, ótta, gremju eða reiði það mikið pláss, vægi og vald að ólíklegt er að annað komist að.

Auðvitað er ákveðið ferli að ganga í gegnum áföll, en hversu mikið pláss má það taka. Hversu lengi ætlar þú að leyfa því að stýra þinni ferð? Eitt ár eða tíu ár? Hvenær er liðið nógu langur tími? Hér er ekki spurning um að sópa hlutunum undir teppið og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist. Alls ekki. Heldur að sjá þessi erfiðu verkefni sem tækifæri til að skoða sjálfan sig og sinn hlut til að öðlast dýpri sjálfsþekkingu. Falið tækifæri í að verða betri í lífinu og jafnvel komast að einhverju nýju um sjálfan sig. Þú gætir komið þér á óvart. Ég er sem betur fer ekki sama manneskjan í dag og fyrir fimm árum hvað þá tíu.

Til þess að sjá þennan fjársjóð sem oft er falinn í erfiðum verkefnum, þurfum við bæði hugrekki og heiðarleika gagnvart okkur sjálfum. Spyrja okkur, hver er minn hlutur, hvað get ég lært og hvað vil ég í dag? Oftar en ekki viljum við leita í sama horf og fyrir áfall eða það líf sem við þekkjum. Svo finnst okkur skrítið ef við eigum ekki samleið með sama fólkinu og áður, höfum misst áhugann á því sem við gerðum áður, eða hreinlega höfum ekki hugmynd um hvað við viljum. Þarna liggur galdurinn. Eftir erfiða reynslu þá breytumst við og það er eðlilegt.

Þá þarf hugrekki og heiðarleika að vopni og skoðun án dóms. Hvað vil ég í dag? Hvað hef ég lært. Hvernig hefur þetta breytt mér? Var ég hugsanlega með einhverjar væntingar sem áttu sér aldrei stoð í raunheimum, held ég enn í þær. Vildi ekki sjá sannleikann eða þorði ekki að horfast í augu við það sem var óumflýjanlegt. Hefur þetta breytt minni afstöðu gagnvart lífinu? Vil ég velja mér aðra leið en áður? Þú þarft að eiga þinn skít með stolti. Hann þarf ekki að marka þig á neikvæðan hátt fyrir lífstíð, frekar en þú vilt.

Þú hefur heimild til að vera annar í dag en þú varst í gær. Mátt meira að segja velja upp á nýtt alla daga. Eini einstaklingurinn sem þú velur fyrir ert þú. Ef þú vilt láta erfiða lífsreynslu stjórna því hver þú ert í dag þá getur þú það. En ef þú vilt taka það besta úr því og nota sem tækifæri til að uppfæra þig þá máttu það líka. Með því að pakka hjartanu í vörn og vera viss um að allt fari á versta veg þá eru litlar líkur á að eitthvað gott komi til þín.

Ef þú tekur sénsinn og gægist þarna inn í sálartetrið, þá gæti það hugsanlega komið þér á óvart. Getur verið að þú sért búin að vera viðnámi við sjálfan þig og jafnvel neitað að taka þá manneskju sem þú ert í dag í sátt. Hversu glatað er það? Í stað þess að bjóða þann lærdóm sem falinn er í þinni erfiðu reynslu velkominn og eiga hann. “Own your shit”.

Já, lífið kann að vera lotterí en það eru engar vinningstölur. Þú ræður nefnilega sjálf eða sjálfur á hvaða tölu vinningurinn kemur.