Netverjar eru gjarnir á að minnast í kímni á það hvernig árið 2020 hefur leikið heimsbyggðina grátt. Nú hefur sprottið fram á sjónarsviðið myndskeið sem sýnir eldingu ljósta niður akkúrat í þann mund sem maður að nafni Aaron Sawitsky minnist á árið í brúðkaupi sínu.

Myndbandið, sem Sawitsky deildi á Instagram-síðu sinni þann 23. ágúst, sýnir brúðkaup hans, sem haldið var utandyra í Massachusetts nokkrum dögum áður. Á einum tímapunkti heyrist Sawitsky segja „Við verðum bara að sætta okkur við það, 2020 hefur ekki verið besta árið,“ og nánast á sama andartaki berast djúpar þrumudrunur og eldingu lýstur niður í bakgrunninum.

„Kveikið á hljóðinu fyrir þetta. Móðir náttúra getur verið ansi háðsk,“ skrifaði Sawitsky undir færsluna þegar hann deildi myndskeiðinu á Instagram.

„Sem betur fer fékk enginn raflost og við náðum að klára að fara með brúðkaupsheitin áður en rigningin byrjaði,“ bætti hann við.

Sjáið myndskeiðið hér: