Election-stjarna látin – Fór inn á baðherbergi og sneri ekki aftur út
Reese Witherspoon miður sín.


Leikkonan Jessica Campbell, sem er hvað best þekkt fyrir að leika Tammy Metzler í kvikmyndinni Election frá árinu 1999, er látin aðeins 38 ára að aldri.
Sarah Wessling, frænka Campbell, staðfestir fregnir af andlátinu í samtali við TMZ. Campbell lést á heimili sínu í Portland í Oregon. Hún heimsótti móður sína og frænku daginn sem hún lét lífið. Þegar að Campbell kom heim til sín fór hún inn á baðherbergi en sneri ekki aftur út. Wessling ákvað að kíkja á hana þegar henni fannst Campbell hafa dvalið of lengi inni í baðherberginu. Wessling fann Campbell á gólfinu en hvorki hún né sjúkraliðar sem voru fyrstir á vettvang náðu að endurlífga leikkonuna. Campbell var ekki með neina undirliggjandi sjúkdóma en beðið er eftir niðurstöðu krufningar.
Búið er að stofna til hópfjármögnunar á GoFundMe til að safna fyrir útfararkostnaði og styðja fjárhagslega við eftirlifandi son leikkonunnar, hinn tíu ára Oliver.
Reese Witherspoon minnist Campbell á samfélagsmiðlum, en Witherspoon lék á móti Campbell í Election.
„Ég er miður mín að heyra þetta. Það var svo ánægjulegt að vinna með Jessicu í Election. Ég sendi alla mína ást til fjölskyldu og ástvina Jessicu,“ skrifar Witherspoon.
So heart broken to hear this. Working with Jessica on Election was such a pleasure. I’m sending all my love to Jessica‘s family and loved ones. https://t.co/xEt6bOwWqE
— Reese Witherspoon (@ReeseW) January 13, 2021