Síðasta febrúar tilkynnti tæknifrumkvöðullinn Elon Musk á Twitter að hann myndi í ágúst sýna almenningi nýjustu framfarir sem orðið hefðu á Neuralink-tækni hans svokallaðri, en hún á að vera heimsins fyrsta viðmót milli tölvu og mannsheilans. Í júlí gekk hann svo skrefinu lengra og tilkynnti nákvæman tíma og dagsetningu á viðburðinum, sem fara mun fram á netinu næstkomandi föstudag, 28. ágúst, kl. 22:00 að íslenskum staðartíma.

Í tilkynningunni í febrúar sagði Musk að næsta útgafa Neuralink yrði stórkostleg miðað við það sem fram kom í fyrstu pressutilkynningunni í júlímánuði í fyrra, en þar var grunnhugmyndin á bak við tæknina útskýrð: rafskaut yrðu grædd undir húð sjúklinga og því næst tengd við tæki sem komið væri fyrir bak við eyrað.

„Vil ekki verða of spenntur, en möguleikarnir hérna gætu gjörbreytt hæfni okkar til þess að endurvekja töpuð taugatengsl og hreyfigetu,“ tísti Musk. Hann hefur einnig oft talað opinberlega um trú sína á því að tækni af þessu tagi — viðmót milli mannsheila og tölvu — muni reynast nauðsynleg til þess að hjálpa mannkyninu að halda í við gervigreind, sem fleygir stöðugt fram hraðar og hraðar. Markmið hans til styttri tíma litið er þó mun einfaldara: hann vill gera fólki kleift að stjórna símum eða tölvum með huganum einvörðungu.

Í útsendingunni á föstudag mun að sögn Musks verða sýnd ný útgáfa af tækninni sem búin er að ná virkni. Einnig verður afhjúpuð ný kynslóð af vélmenni sem hannað er til að tengja tækni Neuralinks við heilann, og sýndar verða í rauntíma heilafrumur að senda boð sín á milli.

Einnig eru komnar á kreik sögusagnir þess efnis að fyrirtækið hyggist tilkynna á föstudaginn að fyrstu tilraunirnar á tækninni á mannfólki muni eiga sér stað fyrir árslok.

Ekki er enn ljóst hvar hægt verður að sjá útsendinguna, en öruggast er sennilega að fylgjast með YouTube-rás fyrirtækisins á föstudaginn kemur.

Sjá einnig:

Gáfnaljósið sem varð glaumgosi